Félagsmenn ánægðir með baráttu FA

01.02.2019
Langflestir félagsmenn telja FA sýnilegt í baráttunni fyrir hagsmunum sínum.

Mikill meirihluti félagsmanna Félags atvinnurekenda er ánægður með frammistöðu félagsins í helstu baráttumálum þess, samkvæmt nýrri könnun meðal félagsmanna. Yfir 80% svarenda í könnuninni telja félagið sýnilegt í baráttu sinni fyrir félagsmenn.

FA gerir árlega könnun meðal félagsmanna. Að þessu sinni var könnunin gerð dagana 24. til 31. janúar. Af 161 fyrirtæki með beina félagsaðild svöruðu 73, eða 45%. Svörunin í könnuninni undanfarin ár hefur verið á bilinu 31-64%.

Spurt var um frammistöðu FA í ýmsum baráttumálum félagsins. Mest ánægja reyndist með frammistöðu FA í baráttunni fyrir því að ríkið (t.d. Íslandspóstur og Isavia) sé ekki í samkeppni við einkafyrirtæki, en þar sögðust 45% félagsmanna sem afstöðu tóku mjög ánægðir með frammistöðuna og 37% ánægðir. Flestir reyndust óánægðir með frammistöðuna í baráttunni fyrir lækkun fasteignagjalda, en þar sögðust samtals 16% þeirra sem afstöðu tóku óánægðir með frammistöðuna. Það mál þar sem flestir eða 36% svöruðu „hvorki né“ var barátta FA fyrir því að íslenska ríkið fari að skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum hvað varðar þriðja orkupakkann.

Einnig var spurt um frammistöðu FA í baráttu fyrir því að regluverk atvinnulífsins verði einfaldað, að tryggingagjald og aðrir fyrirtækjaskattar lækki, að tollar á búvörur verði lækkaðir, að eftirlitsgjöld ríkisins séu í samræmi við raunkostnað, að ríkið bjóði út kaup sín á vörum og þjónustu og að ríkið fari að dómum Hæstaréttar og EFTA-dómstólsins um innflutning á ferskvöru.

Fullyrðingunni „FA er sýnilegt í baráttu sinni fyrir félagsmenn“ sögðust 35% mjög sammála og 46% sammála eða samtals 81%, sem er svipuð útkoma og í fyrra. 7% eru ósammála því að félagið sé sýnilegt.

Smelltu á myndina til að stækka hana.

Eins og undanfarin ár voru félagsmenn spurðir hvert ætti að vera helsta baráttumál FA á árinu 2019. Það sem oftast var nefnt var baráttan fyrir lækkun tryggingagjalds og annarra launatengdra gjalda fyrirtækja. Þar á eftir kom lækkun fasteignagjalda og stöðugleiki í rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Í könnuninni var spurt um ýmsa þætti í þjónustu, upplýsingamiðlun og starfsemi FA og verða niðurstöðurnar nýttar til að bæta enn frekar þjónustuna við félagsmenn og baráttu fyrir hagsmunamálum þeirra.

Nýjar fréttir

Innskráning