Auðvelt að fá gæðavöru framleidda í Kína

06.06.2017
Páll Þór Sigurjónsson sagði frá framleiðsluferli lundans.

Það er þjóðsaga að kínversk framleiðsla sé lakari að gæðum en það sem framleitt er á Vesturlöndum. Þeir sem vita hvert þeir eiga að snúa sér geta fengið gæðavörur framleiddar fyrir sig í Kína, á mun hagstæðara verði en stendur til boða á Íslandi eða annars staðar á Vesturlöndum. Þetta var á meðal þess sem fram kom á málþingi Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins og atvinnurekendadeildar Félags kvenna í atvinnulífinu um framleiðslu í Kína og útflutning til Kína. Málþingið var haldið í húsakynnum Félags atvinnurekenda að loknum aðalfundi ÍKV.

Á meðal frummælenda voru Sigurjón Pálsson, hönnuður og húsgagnasmiður, og Páll Þór Sigurjónsson sonur hans, sem er búsettur í Kína og stundar þar viðskipti. Þeir sögðu m.a. frá því að hinir vinsælu fuglar Sigurjóns væru framleiddir í Kína. Lundinn, sem nú er seldur í verslunum Epal, hefði þurft að kosta um 20.000 krónur út úr búð, hefði átt að framleiða hann á Íslandi en hann er nú seldur á 6.500 krónur þar sem framleiðslukostnaður er mun hagstæðari í Kína. Engu að síður var ekkert slegið af gæðakröfum við framleiðsluna.

Mikil reynsla og þekking í Kína

Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður rakti sína reynslu af framleiðslu í Kína.

Páll rakti hvernig vöruþróunin hjá kínverskum verksmiðjum hefði tekið um ár, þar til lundinn hefði verið tilbúinn til sölu. Ferlið hefði ekki verið áfallalaust, en frumgerðirnar hefðu stöðugt farið batnandi þar til feðgarnir voru ánægðir með útkomuna. Páll sagði að fleira en verðið skipti máli þegar ákvörðun væri tekin um að framleiða hönnunarvöru í Kína. Kínverjar hefðu áratuga reynslu og þekkingu og alltaf væri hægt að finna framleiðanda sem stæði undir vestrænum gæðakröfum.

Framleiðsla lundans er flókið verkefni og samtals framleiða sjö verksmiðjur hluti í fuglinn, níu ef umbúðirnar eru meðtaldar. Páll sagði að ferlið í Kína gæti verið flókið, boðleiðir væru lengri en á Íslandi og hætta á misskilningi talsverð. Miklu máli skipti að vera hundrað prósent viss um að varan væri eins og hún ætti að vera áður en hún væri flutt úr landi.

Handverkið lifir góðu lífi í Kína
Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður sagði svipaða sögu, en hún hefur látið framleiða vörur í Kína fyrir eigin fyrirtæki og ýmis tískufyrirtæki í áratugi. Hún sagði að þegar hún framleiddi fyrstu fatalínuna undir eigin nafni hefði hún valið verksmiðju í Hong Kong frekar en á Íslandi eða á Ítalíu; framleiðslan á Vesturlöndum væri einfaldlega of dýr, auk þess sem mikilvæg þekking á handverki væri að glatast hér á landi. Hún sagðist leggja mikla áherslu á frágang og gæði og fengi hvort tveggja í Kína. Hún hefði jafnvel látið framleiða fyrir sig handgerðar flíkur, handverkið lifði góðu lífi víða í Kína.

Steinunn sagði að fríverslunarsamningur Íslands og Kína hefði hjálpað talsvert í hennar rekstri þegar hann tók gildi árið 2014. Þegar tollar af vörum, sem hún flutti inn frá Kína, voru felldir niður hefði hún haft svigrúm til að leggja meira í gæðin, hefði til dæmis getað keypt enn betra garn í prjónavörur sínar.

Fida Abu Libdeh sagði frá vörum GeoSilia og áformum um útflutning til Kína.

Hún sagðist ætla að halda áfram að framleiða í Kína og vonaðist til að íslenskir hönnuðir lærðu meira um framleiðsluna, því að framleiðsluferlið væri gífurlega mikilvægt og í raun hluti af hönnunarferlinu.

Stefnt að útflutningi á kísilvörum
Þriðji frummælandinn á málþinginu var Fida Abu Libdeh, framkvæmdastjóri GeoSilica. Hún sagði stefnt að útflutningi snyrtivara fyrirtækisins til Kína. Fríverslunarsamningurinn og gott flutninganet Eimskipa væru þar lykilatriði.

Óbreytt stjórn ÍKV
Áður en málþingið hófst var haldinn aðalfundur Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins. Stjórn ráðsins er óbreytt, en hana skipa Ársæll Harðarson formaður, Jónína Bjartmarz, Örn Svavarsson, Jóhann Xiang og Stefán Sigurður Guðjónsson. Tveir síðastnefndu stjórnarmennirnir voru endurkjörnir í stjórn á aðalfundinum.

Viðtal við Pál Þór Sigurjónsson á Hringbraut

Nýjar fréttir

Innskráning