Batinn gæti verið tímabundinn

30.08.2016
Þórarinn G. Pétursson.
Þórarinn G. Pétursson.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði á fundi Félags atvinnurekenda í morgun að efnahagsbatinn undanfarin misseri og staða Íslands væri að mörgu leyti einstakur. Ísland hefði upplifað mesta viðskiptakjarabata allra OECD-ríkja og staða okkar væri einstök meðal hrávöruútflutningsríkja. Engu að síður væri tilefni til að hafa nokkrar áhyggjur af þenslu í þjóðarbúskapnum og Íslendingar yrðu að vera viðbúnir því því að batinn væri tímabundinn og gæta sín að glutra ekki árangrinum niður.

Þórarinn benti á að hækkun gengis krónunnar væri eðlileg vegna öflugrar hagþróunar, en um leið væri ástæða til að spyrja hvort samkeppnisstaða Íslands í alþjóðaviðskiptum myndi versna vegna gífurlegra launahækkana og hækkandi raungengis.

Spenna á vinnumarkaði þrýstir á launin
Í máli hans kom jafnframt fram að langtímaatvinnuleysi væri horfið, sem væri einstakt í vestrænum ríkjum. Það væri að sjálfsögðu jákvætt, enda fælist alltaf mannlegur harmleikur í atvinnuleysi til langs tíma, en væri þó áraun fyrir þjóðarbúskapinn. Yfir 40% fyrirtækja upplifðu nú skort á starfsfólki, tvöfalt fleiri en í fyrra. Skorturinn væri mestur hjá fyrirtækjum í iðnaði og framleiðslu, en í ljós kæmi að hjá verslunarfyrirtækjum, þar sem nánast enginn vinnuaflsskortur hefði verið fyrir ári, ættu nú 40% fyrirtækjanna erfitt með að ná í hæft starfsfólk. Hætta væri á að þessi staða þrýsti enn upp launastiginu, atvinnulífið missti tökin og gamla sagan um víxlhækkanir launa og verðlags byrjaði aftur.

Þórarinn lýsti áhyggjum af minnkandi aðhaldi í ríkisfjármálum, einkum á tekjuhlið ríkissjóðs. Þegar afkoma ríkissjóðs hefði verið leiðrétt fyrir áhrifum af hagsveiflunni, kæmi í ljós að slakað hefði verið á aðhaldinu um 2,5% af landsframleiðslu á síðustu tveimur árum, sem væri óheppilegt.

Frá félagsfundi FA um stöðu og horfur í efnahagsmálum í morgun.
Frá félagsfundi FA um stöðu og horfur í efnahagsmálum í morgun.

Framleiðni vex alltof lítið
Þórarinn sagðist telja að núverandi hagvöxtur væri umfram það sem gæti staðist til lengdar. Áhyggjuefni væri að störfum hefði fjölgað mikið á sama tíma og framleiðni yxi afar lítið. Framleiðnivöxtur hefði verið um 1% á ári eftir hrun, sem væri minna en það sem verið hefði sögulega. Lítil fjárfesting hefði verið í tækni og þekkingu eftir hrun og þá væri ferðageirinn, sem væri sú atvinnugrein sem mest vex, í eðli sínu lágframleiðnigeiri þar sem margar hendur þyrfti til að vinna störfin. „Við ættum að vera að ræða þessa þróun sem þjóð, því að þetta mun ákvarða efnahagslega hagsæld okkar til lengri tíma,“ sagði Þórarinn.

Stefnir í lægra vaxtastig
Talsverðar umræður urðu á fundinum um vaxtastefnu bankans. Þórarinn rakti það að vextir væru hærri hér á landi en í öðrum iðnríkjum þótt verðbólga væri svipuð. Hann benti hins vegar á að viðfangsefni peningastefnunnar hefði verið að ná langtímaverðbólguvæntingum í markmið, nokkuð sem hefði vantað upp á þar til nýlega, á meðan að verðbólguvæntingar í öðrum iðnríkjum hefði annað hvort trausta kjölfestu í markmiði eða hefðu lækkað undir það. Efnahagsumsvif væru þar að auki kröftugri hér og nokkur framleiðsluspenna tekin að myndast, ólíkt því sem er í öðrum iðnríkjum þar sem enn er töluverður slaki í þjóðarbúinu. Þá væri nafneftirspurn og laun að hækka miklu meira hér en í samanburðarríkjunum og allt þetta kallaði á hærra vaxtastig hér á landi en þar. Hins vegar virðist árangur vera að nást og því horfur á að hægt sé að halda verðbólgu í markmiði með lægra vaxtastigi en áður var talið.

Ýtarlegar glærur með erindi Þórarins má skoða hér að neðan.

Glærur Þórarins

Nýjar fréttir

Innskráning