FA á vel heppnaðri sjávarútvegssýningu í Brussel

27.04.2016
Badda Brussel
Starfsmenn í bás FA, Bjarndís Lárusdóttir skrifstofustjóri félagsins og Sigríður Finnbjörnsdóttir.

Félag atvinnurekenda tekur þátt í sjávarútvegssýningunni í Brussel með eigin bás eins og undanfarin ár. Sýningin í ár þykir vel heppnuð og drógu hryðjuverkin í Brussel í síðasta mánuði lítið úr þátttökunni; um 95% þátttakenda í sýningunni héldu sínu striki.

Sjávarútvegssýningin, Seafood Expo Global, er nú haldin í 24. sinn og stendur dagana 26.-28. apríl. Sýningin er ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum og sækja hana um 26.000 gestir. Sýnendur og þátttakendur koma frá liðlega 140 löndum. Íslandsstofa heldur utan um þátttöku íslensku fyrirtækjanna.

Fjórir félagsmenn Félags atvinnurekenda sýna vörur sínar í bás FA, E. Ólafsson ehf., G. Ingason hf., Íslenska umboðssalan hf. og Íslenska útflutningsmiðstöðin hf.

Auk þess eru þrír félagsmenn FA og samstarfsfélagsins SFÚ með eigin bása á sýningunni; Menja hf., Tríton hf. og Ican ehf.

Samgöngur ganga vel – mikil öryggisgæsla
Félag atvinnurekenda hefur haft milligöngu um leiguflug til Brussel undanfarin ár og sá Wow Air um flugið líkt og í fyrra. Lent var á Charleroi-flugvelli suður af Brussel þar sem afkastageta Zaventem-flugvallar er enn skert eftir hryðjuverkin þar. Sú breyting á áætlun hefur ekki komið að sök.

Radherra Brussel
Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Brussel, og Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegsráðherra með Birgi Bjarnasyni formanni FA og Bjarndísi Lárusdóttur skrifstofustjóra.

Aðstandendur sýningarinnar hafa bætt mjög við rútuferðir til og frá sýningarhöllinni vegna tregðu fólks við að nota lestakerfi borgarinnar. Samgöngur hafa gengið snurðulaust og allt skipulag verið til fyrirmyndar.

Öryggisgæsla er meiri en venjulega, enda voru öryggisráðstafanir hertar verulega í kjölfar hryðjuverkanna.

Mikil aðsókn hefur verið að bás FA, sem er fullur af fólki frá morgni til kvölds.

 

 

 

Nýjar fréttir

Innskráning