FA fer fram á að tollar á blómkáli falli strax niður

27.08.2019
Tóm blómkálshilla í stórmarkaði í Reykjavík í gær.

Skortur er á blómkáli á innanlandsmarkaði og gripu viðskiptavinir stórmarkaða, sem voru á höttunum eftir blómkáli, víða í tómt í gær. Félag atvinnurekenda hefur sent atvinnuvegaráðuneytinu erindi og farið fram á að tollar á innfluttu blómkáli falli þegar í stað niður, þannig að hægt sé að tryggja framboð af innfluttu blómkáli á viðráðanlegu verði.

Blómkál er tískuvara þessa dagana og nýtur mikilla vinsælda, eins og fjallað var um í fréttum RÚV í síðustu viku.  Uppskera af nýju, íslensku blómkáli er hins vegar langt frá því að anna eftirspurn. Stórir dreifingaraðilar innan Félags atvinnurekenda hafa fengið um eða innan við 10% þess sem þeir telja sig þurfa frá innlendum framleiðendum. Ekkert blómkál hefur verið til í byrjun vikunnar og óvíst er hvenær meira verður til og þá hversu mikið.

Blómkál er tollfrjálst mestan hluta árs, en þegar íslensk uppskera kemur á markað síðsumars er iðulega settur á tollur. Það var gert 18. ágúst síðastliðinn. Tollurinn á blómkál er tvískiptur, annars vegar 30% verðtollur og hins vegar 176 króna magntollur á kíló. Á kíló af innfluttu blómkáli, sem kostar 300 krónur í innkaupum, leggst þannig 266 króna tollur og innkaupsverðið hartnær tvöfaldast. Þá er eftir að gera ráð fyrir álagningu og virðisaukaskatti.

Einstakir innflytjendur óskuðu þegar í síðustu viku eftir því að atvinnuvegaráðuneytið felldi niður tolla á blómkáli, vegna þess að skortur væri augljóslega fyrir hendi í skilningi 65. gr. A í búvörulögum. Félag atvinnurekenda semdi ráðuneytinu beiðni sama efnis í gær. Ráðuneytið hefur enn ekki brugðist við þessum erindum.

Framkvæmdastjóri FA ræddi málið í sjónvarpsfréttum RÚV.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, ræddi málið í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi. Hann benti á að tollvernd væri í rauninni ekki nauðsynleg fyrir flestar tegundir af íslensku grænmeti, þar sem kannanir sýni að neytendur velji ferskt, innlent grænmeti og séu jafnvel reiðubúnir að greiða hærra verð fyrir það en innflutt grænmeti. „Að skella á tollum í nokkrar vikur á meðan innlenda framleiðslan er á markaðnum gerir ekkert nema skaða hagsmuni neytenda,“ sagði Ólafur.

Frétt RÚV um málið

Nýjar fréttir

Innskráning