FA mótmælir hækkun opinbers eftirlitskostnaðar

28.04.2020

Félag atvinnurekenda hefur sent Matvælastofnun (MAST) erindi og mótmælt boðaðri hækkun opinbers eftirlitskostnaðar matvælafyrirtækja.

Ýmsum félagsmönnum FA í innflutningi og framleiðslu matvæla barst í síðustu viku tölvupóstur frá MAST þar sem greint er frá fyrirhugaðri sýnatöku vegna skimunar fyrir óæskilegum varnarefnum í matvælum. Í póstinum er vakin athygli á því að „rannsóknastofan hefur hækkað verð á greiningum og einnig hefur hún fellt niður afslátt sem eftirlitsaðilar höfðu, og eftirlitsþegar höfðu notið góðs af. Reikningar vegna kostnaðar við greiningu hvers sýnis munu því óhjákvæmilega hækka.“ Hér mun átt við rannsóknarstofu opinbera hlutafélagsins Matís, sem greinir sýni sem heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna hafa tekið hjá matvælafyrirtækjum.

Í erindi FA til MAST er þessari hækkun harðlega mótmælt. „Það vekur mikla furðu Félags atvinnurekenda að við núverandi aðstæður í íslenzku atvinnulífi, þar sem fyrirtæki berjast fyrir lífi sínu vegna afleiðinga heimsfaraldurs COVID-19, skuli boðuð hækkun opinberra eftirlitsgjalda. Stjórnvöld hafa undanfarnar vikur fremur leitazt við að draga úr kostnaði fyrirtækja,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri í bréfinu. „Hér er um að ræða aukinn kostnað fyrir innflytjendur og framleiðendur matvæla, sem mun óhjákvæmilega leiða til hækkana á verði matvöru, til viðbótar við verðhækkanir vegna gengisbreytinga.“

Mikil hækkun undanfarin ár
FA vekur ennfremur athygli á því að kostnaður við greiningu hvers sýnis hefur hækkað mikið undanfarin ár, eða úr 81.760 krónum árið 2016 í 105.578 krónur fyrr á þessu ári, eða um 29,1%. Er þá gjaldtaka vegna sýnatökunnar sjálfrar ótalin. Bendir félagið á að í sumum tilvikum eru teknir tugir sýna hjá sama fyrirtækinu, sem þýðir að kostnaður hvers fyrirtækis getur hlaupið á milljónum króna. FA andmælir eindregið enn frekari hækkun á þessum gjöldum.

Samkvæmt lögum og dómafordæmum verða opinber eftirlitsgjöld að miðast við raunkostnað við eftirlitið, gjaldskrá verður að vera birt opinberlega og kostnaðargreining að liggja að baki gjaldtökunni. Í bréfinu fer FA fram á að MAST sendi félaginu hina nýju, opinberu gjaldskrá vegna töku sýna vegna varnarefna í matvælum, bæði fyrir sýnatöku- og rannsóknarkostnað, ásamt ýtarlegum rökstuðningi. Þar er ennfremur óskað eftir upplýsingum um hvaða ákvæði í þjónustusamningi MAST og Matís heimili síðarnefnda fyrirtækinu að hækka verð og afnema afslátt einhliða.

Hægt að lækka eftirlitskostnað
FA fer að lokum fram á að MAST leiti allra leiða til að lækka eftirlitskostnað. Félagið nefnir nokkrar leiðir að því markmiði. Ein gæti verið að einn starfsmaður heilbrigðiseftirlits sjái um sýnatöku í stað tveggja, eins og oftast mun vera raunin. Önnur getur verið að taka mið af því að mikið af matvöru, t.d. grænmeti, ávöxtum og kornmat, er flutt inn frá löndum Evrópska efnahagssvæðisins, þar sem þegar hafa verið tekin sýni af vörunni hjá birgjum íslenzkra innflutningsfyrirtækja, samkvæmt sama regluverki og hér gildir. Sú þriðja gæti verið að bjóða út rannsókn á sýnunum, en FA hefur upplýsingar um að verð hjá rannsóknarstofum í nágrannalöndunum sé mun lægra en hjá Matís ohf.

„Matvælafyrirtæki geta alltént ekki sætt sig við einhliða hækkanir opinbers eftirlitskostnaðar á þessum erfiðu tímum,“ segir í niðurlagi bréfsins.

Kristjáni Þór Júlíussyni landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra var sent afrit af bréfinu til MAST og hefur FA fengið þær upplýsingar að málið sé til skoðunar í ráðuneytinu.

Bréf FA til MAST

Nýjar fréttir

Innskráning