Flókið að svara spurningum um Expressþjónustu

19.02.2016

FjarmalaraduneytiFélagi atvinnurekenda hefur borist svarbréf frá fjármálaráðuneytinu við ítrekun á fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar ráðherra um afstöðu ráðuneytisins til Expressþjónustu Fríhafnarinnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

FA hefur frá því í ágúst 2015 spurt þrisvar um afstöðu ráðuneytisins til málsins. Að mati FA er Expressþjónustan liður í ósanngjarnri samkeppni ríkisins við verslunina í landinu, en hún býður upp á að fólk geti pantað vörur án opinberra gjalda á netinu og fengið aðra til að sækja þær fyrir sig í Leifsstöð. Í bréfum FA hefur verið rifjað upp að árið 1996 tók Friðrik Sophusson, þáverandi fjármálaráðherra, fyrir sambærilega þjónustu Fríhafnarinnar, svokallaða símasölu, eftir fyrirspurn frá FÍS, forvera FA. Í bréfum félagsins hefur verið spurt: „Hefur afstaða ráðuneytisins til slíkrar pöntunarþjónustu á vegum Fríhafnarinnar breytzt? Ef ekki, til hvaða aðgerða hyggst ráðuneytið grípa?“

Í svarbréfi ráðuneytisins segir að þar á bæ hafi fólk gert sér vonir um að skoðun erindisins lyki fyrir árslok 2015. „Ráðuneytið upplýsir að það hefur erindið frá 12. ágúst 2015 enn til skoðunar enda hefur reynst flóknara að bregðast við erindinu en gert hafði verið ráð fyrir,“ segir í bréfinu.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að það séu vonbrigði að ráðuneytið hafi enn ekki tekið af skarið í málinu en vissulega jákvætt að verið sé að vinna í því. „Árið 1996 tók það ráðuneytið einn dag að móta þá afstöðu að um óeðlilega og ósanngjarna viðskiptahætti væri að ræða og grípa til aðgerða til að stöðva þá í framhaldinu. Við gerum ráð fyrir að niðurstaðan verði sú sama nú, þótt stjórnsýslan taki sér lengri tíma en fyrir 20 árum,“ segir Ólafur.

Svarbréf ráðuneytisins

Nýjar fréttir

Innskráning