Gera tollar okkur að meðvituðum neytendum?

14.04.2021
Eggjabændur eru bæði komnir út í lífræna ræktun og farnir að gefa upplýsingar um aðbúnað dýranna. Það er ekki algengt í íslenskum landbúnaði.

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, skrifaði áhugaverða grein í Morgunblaðið fyrir skemmstu og fjallaði annars vegar um gagnsemi tollverndar fyrir íslenzkan landbúnað og hins vegar um mikilvægi þess að neytendur séu meðvitaðir um matvöruinnkaupin og styðji ekki óbeint við framleiðsluhætti sem vinna gegn umhverfinu, hreinlæti, velferð dýra eða kjörum bænda og landbúnaðarverkafólks. Um seinna atriðið getum við verið sammála.

Einhvers misskilnings virðist reyndar gæta þegar Vigdís skrifar í byrjun greinar að það sé „allt eins gott í upphafi að nefna að tollar eru lagðir á fleiri vöruflokka en eingöngu innfluttar landbúnaðarvörur“ og fjallar í framhaldinu um það hlutverk tolla að vernda innlenda framleiðslu. Hér á Íslandi hafa tollar verið afnumdir af öllum vörum öðrum en sumum landbúnaðarvörum og sumum iðnaðarvörum úr landbúnaðarhráefnum. Allar aðrar framleiðslugreinar spjara sig án tollverndar.

En það er ekki aðalatriðið hér, heldur keðjuábyrgð neytandans, eins og Vigdís kallar það; að neytendur séu meðvitaðir um hvernig staðið er að framleiðslu og dreifingu matvæla og öll virðiskeðjan höfð í huga. Neytendur sýna í vaxandi mæli slíka ábyrgð og hafa skoðanir á því hvað þeir kaupa og láta ofan í sig.

Innlent=gott, útlent=slæmt?
Í umræðum á Íslandi ber enn á þeirri hugmynd að hægt sé að skipta búvörum í tvo flokka; innlendar, sem eru hollar, öruggar, umhverfisvænar og ábyrgar og erlendar, sem eru ekkert af þessu og þess vegna eins gott að koma í veg fyrir að við notum of mikið af þeim, til dæmis með háum tollum.

Veruleikinn er hins vegar ekki svarthvítur. Það er algjörlega fráleitt að setja allan útlendan landbúnað undir sama hatt hvað varðar t.d. framleiðsluaðferðir, dýravelferð og kjör starfsfólks – og jafnfráleitt að meðhöndla íslenzkan landbúnað með sama hætti. Tökum nokkur dæmi.

Það hefur verið notað sem röksemd fyrir innflutningshöftum að þau sporni gegn neyzlu Íslendinga á búvörum sem standast ekki kröfur um fæðuöryggi. Svo einfalt er það samt ekki. Síðastliðið sumar sagði Stöð 2 t.d. frétt af því að kjúklingur hefði verið innkallaður níu sinnum oftar vegna salmonellusmits hér á landi en í Danmörku á 12 mánaða tímabili. Langmest af innfluttum kjúklingi í íslenzkum verzlunum er einmitt frá Danmörku.

Fyrir nokkrum misserum býsnuðust menn yfir kolefnisspori nýsjálenzks lambakjöts, sem var keypt til landsins vegna skorts á innlendri vöru. Þar gleymdist að taka eitt og annað með í reikninginn. Flutningur, jafnvel heimshorna á milli, er oftast aðeins lítið brot af kolefnisspori vöru í samanburði við framleiðsluferlið. Nýsjálenzk lambakjötsframleiðsla er svo gott sem kolefnishlutlaus, m.a. vegna víðtækrar skógræktar á jörðum bænda. Kolefnisspor íslenzkrar sauðfjárræktar er hins vegar með því stærsta sem gerist samkvæmt nýlegri rannsókn vísindamanna við Landbúnaðarháskóla Íslands. Það getur reyndar verið mikill munur á kolefnislosun einstakra búa og fer t.d. eftir því hvort mikið votlendi var ræst fram til öflunar heyja eða hvort fé er beitt á land sem er í slæmu ástandi. En um það fær hinn íslenzki neytandi engar upplýsingar, enda veit hann sjaldnast hvaðan lambakjötið hans kemur.

Umræðan um aðbúnað dýra er ekki mjög þroskuð á Íslandi. Í grannlöndum okkar vilja margir neytendur ekki kaupa búvörur eins og kjöt og egg nema þeir séu vissir um að þær standist kröfur um „higher welfare“, þ.e. að aðbúnaður dýra sé betri en lágmarksreglur segja til um, að varphænur og grísir geti til dæmis gengið laus úti við. Segja má að eggjaframleiðendur á Íslandi séu einu bændurnir sem farnir eru að veita neytendum aðgengilegar upplýsingar um aðbúnað dýranna – líklega ýtti Brúneggjamálið duglega við þeim.

Lífræn ræktun er sömuleiðis skammt á veg komin hér á landi miðað við flest nágrannalöndin og mun betra framboð á innfluttum, lífrænt ræktuðum búvörum en innlendum.

Kjör sauðfjárbænda hafa árum saman verið til umræðu; fæstir geta þeir framfleytt sér með sauðfjárrækt einni saman og segjast sumir varla hafa í sig og á. Það er áhyggjuefni – en erum við að ýta undir léleg kjör sauðfjárbænda með því að kaupa íslenzka lambakjötið?

Frjálst val á grunni upplýsinga og umræðu
Þessar vangaveltur eru ekki settar fram til að varpa rýrð á íslenzkan landbúnað, síður en svo. Þar er margt vel gert og af gríðarlegum metnaði. En við megum ekki falla í þá gryfju að láta eins og allar innlendar búvörur séu frábærar út frá öllum mælikvörðum og allar útlendar stórvarasamar. Staðreyndin er sú að í landbúnaði nágrannalanda okkar í Evrópu, þaðan sem langstærstur hluti innfluttra mjólkur- og kjötvara kemur, er unnið samkvæmt sama regluverki og gildir hér á landi og bændur sýna sama metnað og frumkvæði í því að framleiða vörur sem neytendur treysta.

Ef við viljum efla ábyrgð og meðvitund neytenda gerum við það með umræðu og upplýsingum, bæði um það sem vel er gert og það sem ekki tekst eins vel, jafnt í íslenzkum landbúnaði og erlendum. Það er næsta víst að álagning tolla í því skyni að halda innfluttum búvörum frá neytendum gerir ekkert til að auka meðvitund okkar um það sem við kaupum og neytum. Eðlilegast er að við höfum sem frjálsast val á milli búvara af ólíkum uppruna, og veljum einmitt út frá upplýsingum og umræðu.

Nýjar fréttir

Innskráning