Gömlu dansarnir

29.12.2018
Launakostnaður fyrirtækja hækkaði um 32% frá nóvember 2013 til ársloka 2018.

Áramótagrein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Kjarnanum 29. desember 2018.

Tónninn í kjaraumræðu á Íslandi harðnaði verulega á árinu 2018, eftir að ný forysta var kjörin í sumum stærstu stéttarfélögum landsins og Alþýðusambandinu. Orðin sem eru notuð eru miklu stærri en tíðkazt hafa um langt skeið og jafnframt hafa stéttarfélög lagt fram kröfugerð, sem er brattari en sézt hefur í áratugi og myndi hafa í för með sér tuga prósenta launakostnaðarhækkanir fyrirtækja, yrði gengið að henni.

SALEK sem dó
Þetta er mikil breyting frá árinu 2015, þegar skrifað var undir SALEK-samkomulagið svokallaða. Man einhver eftir því? Samkvæmt kynningu Alþýðusambandsins á því gekk það út á að „stuðla að því að bæta þekkingu og vinnubrögð við undirbúning og gerð kjarasamninga með Norðurlöndin sem fyrirmynd. Markmiðið er að auka kaupmátt á grundvelli lágrar verðbólgu, lágra vaxta og stöðugs gengis. Á hinum Norðurlöndunum hefur tekist að auka kaupmátt tvisvar sinnum meira á ári á síðustu 15 árin en hér á landi. Auk þess er samkomulaginu ætlað að stuðla að friði á vinnumarkaði og auknum stöðugleika.“

Segja má að kveikjan að því að aðilar vinnumarkaðar og ríkið skrifuðu undir SALEK hafi verið að menn sáu að það gekk ekki upp að samtök opinberra starfsmanna yrðu leiðandi í launahækkunum á vinnumarkaði. Meiningin var að reyna að greina hver framleiðniaukningin væri í hagkerfinu og við hvaða launahækkanir útflutningsgreinarnar réðu, og láta svo launastefnuna almennt ráðast af því – eins og gerist í öðrum norrænum ríkjum. Staðan á vinnumarkaðnum nú er órafjarri því sem uppleggið var með SALEK, enda liggur það samkomulag nú steindautt í gröf sinni. Það veiktist upphaflega vegna þess að hluti samtaka opinberra starfsmanna vildi ekki skrifa undir það og taldi sig ekki fá nóg út úr því. Úrskurðir kjararáðs um laun embættismanna greiddu því svo náðarhöggið.

Stofnanaminnið sem hvarf
Niðurstaða nýrra forystumanna í verkalýðshreyfingunni virðist vera að hugmyndafræðin og reynslan sem SALEK byggðist á hafi verið einskis virði og nú sé bezt að snúa sér aftur að gamalreyndum aðferðum, sem ganga út á að krefjast himinhárra nafnlaunahækkana, alveg burtséð frá því hvaða innistæða er fyrir þeim hjá atvinnulífinu. Þetta er svolítið eins og við séum stödd á bar þar sem leikin hefur verið framsækin tónlist ungra poppara, en skyndilega er bara boðið upp á gömlu dansana og gaurinn með nikkuna hefur tekið staðinn í gíslingu. Niðurstaða snúninga gömlu dansanna á vinnumarkaði var reyndar alltaf sú sama; gengisfall, verðbólguskot og vaxtahækkanir. Það er ekki nokkur ástæða til að ætla að beiting þeirra aðferða hafi aðrar afleiðingar nú. Eins og svo ótal sinnum áður munu launahækkanir sem taka ekki mið af undirliggjandi hagstærðum mæta þeim gamalkunnu örlögum að verðbólgan étur þær upp, en eftir sitja umbjóðendur verkalýðsforystunnar með hærri höfuðstól húsnæðislána og/eða þyngri vaxtabyrði.

Það er auðvitað auðvelt að afgreiða þessa greiningu sem hræðsluáróður talsmanns atvinnurekenda, en hún er nú samt byggð á langri reynslu manns sem hefur fylgzt náið með efnahags- og kjaramálum Íslendinga sem blaðamaður frá því á níunda áratug síðustu aldar og bæði orðið vitni að stórum mistökum og því sem betur hefur verið gert. Nú virðist því miður sem svo að forystuskipti í verkalýðshreyfingunni þýði að stofnanaminnið á kjaraviðræður síðustu áratuga hafi glatazt þeim megin borðsins, enginn vilji sé til að draga lærdóma af mistökum fortíðarinnar og þá lítur satt að segja ekki vel út með getuna til að marka stefnuna til framtíðar.

Heppnin sem kemur ekki aftur
Atvinnurekendamegin við borðið hafa menn gert sín mistök, til dæmis þegar æðstu stjórnendur fyrirtækja hafa orðið uppvísir að því að þiggja launahækkanir sem eru langt umfram þær kjarabætur, sem almenningur hefur fengið undanfarin ár. Þær hafa þó verið ríflegar. Gleymum því ekki að í SALEK-samkomulaginu var gengið út frá því að launakostnaður hækkaði um 32% að meðaltali á tímabilinu nóvember 2013 til ársloka 2018. Það eru launahækkanir sem eiga sér ekki hliðstæðu í nágrannaríkjum okkar. Ástæðurnar fyrir því að þær leiddu ekki af sér verðbólgu eftir kjarasamningana 2015 voru hinn gríðarlegi vöxtur ferðaþjónustunnar með tilheyrandi gengisstyrkingu og hagstæð þróun á alþjóðlegum mörkuðum, t.d. fyrir hrávörur og olíu. Það er afar ósennilegt, satt að segja nánast útilokað, að við verðum aftur jafnheppin.

Þótt umræðan um kjaramálin frá degi til dags beri því lítinn vott, eru það sameiginlegir hagsmunir fyrirtækjanna og launþega að ná skynsamlegri niðurstöðu, sem tekur mið af raunverulegri framleiðniaukningu í atvinnulífinu og þar með svigrúmi til að hækka laun. Það eru líka sameiginlegir hagsmunir að afstýra verkföllum, sem eru öllum aðilum til stórkostlegs tjóns.

Það sem kemur í budduna og það sem fer úr henni
Hér er ein uppástunga um hvernig megi stækka samkomulagsflötinn þegar rætt er um kaup og kjör; að einblína ekki bara á það sem kemur í buddu launþega heldur líka það sem fer úr henni. Það síðarnefnda skiptir nefnilega líka máli svo fólk nái endum saman.

Það komu til dæmis furðulítil viðbrögð frá launþegahreyfingunni við nýlegri frétt um að samkvæmt tölum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, væri Ísland dýrasta land í Evrópu. Verðlagið hér er 66% yfir meðaltali ESB-ríkjanna. Tölurnar eru reyndar frá síðasta ári og myndin gæti litið eilítið öðruvísi út samkvæmt nýjustu tölum, til dæmis af því að krónan hefur veikzt og mögulega ná Eurostat-tölurnar ekki utan um Costco-áhrifin svokölluðu. En þessi samanburður segir okkur samt að við eigum að geta gert miklu betur hvað verðlagið varðar. Það gerist fyrst og fremst með því að opna hagkerfið fyrir samkeppni.

Ríkið tekur til sín langstærstan hluta af verði léttvínskassa.

Matur er þannig 55% dýrari en að meðaltali í Evrópusambandinu. Alþýðusambandið gerði vel í því fyrr á árinu að benda á að verðþróun mjólkurvara væri óhagstæðari en annarra vara, af því að nánast engin samkeppni væri á þeim markaði hér á landi. En hvar var þá verkalýðshreyfingin þegar Alþingi gekk á bak loforðum sínum, með þeim afleiðingum að höfð voru af neytendum 104 tonn af tollfrjálsum ostum á árinu? Og af hverju gera forystumenn verkalýðsfélaga ekki skýra kröfu um aukna erlenda samkeppni á lægra verði, sem er augljóslega umbjóðendum þeirra til hagsbóta? Af hverju gerir verkalýðsforystan engar athugasemdir við harmakvein innlendra framleiðenda, sem barma sér yfir því að greitt sé fyrir slíkri samkeppni?

Ef rýnt er í Eurostat-tölurnar sést að sá vöruflokkur þar sem mestu munar á ESB-meðaltalinu og Íslandi eru áfengir drykkir og tóbak. Þar er verðlagið 126% hærra á Íslandi. Ástæðan er ósköp einföld: Áfengisskattar eru þeir hæstu í Evrópu. Af hverju spyr verkalýðshreyfingin ekki hvað hinn íslenzki launamaður hafi gert til að verðskulda að greiða þannig margfalt kostnaðarverð bjórkippunnar eða léttvínsflöskunnar sem er eðlilegur hluti af neyzlumynztri flestra?

Húsnæðismarkaðurinn sem sprakk
Eurostat-könnunin tók ekki til húsnæðis, en þróun húsnæðiskostnaðar er vafalítið ein stærsta ástæða þess að einhverjum hluta launafólks finnst hann hafa setið eftir þrátt fyrir kjarabætur síðustu ára. Á viðmiðunartímabili SALEK-samkomulagsins, þ.e. frá því seint á árinu 2013, hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu þannig hækkað um yfir 60% og vísitala leiguverðs um tæplega 50%. Þetta þýðir að síhækkandi hlutfalli þess sem fer úr buddunni er varið í húsnæði.

Þarna verka margir þættir saman; aukinn þrýstingur hefur verið á verð húsnæðis vegna þess að það hefur orðið vinsælli fjárfestingarkostur fjármagnseigenda, ásókn ferðaþjónustu í íbúðarhúsnæði hefur margfaldazt og skipulagsáherzlur stórra sveitarfélaga um þéttingu byggðar hafa að mörgu leyti komið á óheppilegum tíma af því að það er dýrara að byggja innan eldri hverfa en að reisa ný. Nú er farin af stað vinna við að finna lausnir á húsnæðisvandanum. Þær felast ekki í leiguþaki eða öðrum hömlum, sem myndu draga úr framboði og auka enn á vandann, heldur að finna leiðir til að auka framboð íbúðarhúsnæðis á viðunandi verði. Það getur gerzt með ýmsum hætti; með breytingum á skipulagi, skattaívilnunum til fyrirtækja og félaga sem vilja reisa slíkt húsnæði, breytingum á byggingarreglugerðum – og svo má auðvelda fólki að eignast húsnæði með því að heimila því að leggja hluta séreignarlífeyrissparnaðar inn á húsnæðislánin.

Hagsmunirnir sem liggja saman
Svo það sé sagt aftur: Það eru sameiginlegir hagsmunir fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra að leiðir finnist til að allir nái endum saman. Og samstarfsfletirnir eru sannarlega fyrir hendi. Flötur sem hefur fengið litla athygli í kjaraumræðu vetrarins er sá hvernig hægt er að tryggja að launþegar fái meira fyrir krónurnar sínar. Það gerist ekki sízt með því að stuðla að samkeppni, lágum sköttum og frjálsri verzlun. Þar þarf reyndar að fá ríkið með í lausnirnar, rétt eins og í kjaraviðræðunum í heild.

 

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning