Hvað með Herra Hnetusmjör?

23.10.2017

Félag atvinnurekenda hefur skrifað Neytendastofu bréf og gert athugasemdir við kvörtun Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) yfir því að drykkir unnir úr jurtaafurðum og aðrar eðlislíkar vörur skuli vera seldar í verslunum undir heitum eins og möndlumjólk, haframjólk eða hnetusmjör.

Í Fréttablaðinu 19. október var rætt við skrifstofustjóra SAM, Bjarna R. Brynjólfsson, sem greindi frá því að málið sneri að nokkrum vörum. „Til að mynda eins og möndlumjólk, sem er gerð úr möndlum og sannarlega ekki mjólk, sjáðu til, maður mjólkar ekki möndlur. Einnig er um að ræða ólífusmjör sem er ekki smjör heldur smjörlíki og einnig höfum við sér búðing, sem búinn er til úr haframjöli, merktur sem jógúrt.“ SAM telur um villandi viðskiptahætti að ræða. Bjarni segir að Neytendastofa hafi tekið undir gagnrýni SAM og sent bréf til verslana í landinu.

Í bréfi FA er því hafnað að markaðssetning jurtamjólkur og afleiddra vara sé andstæð lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Er í því efni m.a. vísað til eftirfarandi atriða:

  • Stór hluti neytenda þessara vara neytir þeirra af heilsufarsástæðum eða kýs einfaldlega að neyta ekki dýraafurða, þ.m.t. kúamjólkur. Orðstír mjólkur og mjólkurafurða hafi engin áhrif á kauphegðun þessara neytenda, þeir velji vörurnar vegna dýramjólkurleysis þeirra en ekki vegna þess að orðið mjólk er í heiti þeirra eða í hillumerkingum.
  • Ljóst er af orðabókarskilgreiningu að dýramjólk er ekki eina tegund mjólkur. Í orðabók er auk dýramjólkur vísað til safa ýmissa plantna (fíflamjólk) og svil úr fiski. Þá er smjör ekki einskorðað við smjör gert úr kúamjólk. Hnetusmjör er skilgreint í orðabók sem þykkt mauk úr hnetum, oftast jarðhnetum, notað t.d. sem álegg.
  • Vörurnar eru alla jafna afmarkaðar sérstaklega í verslunum. Umbúðirnar eru ólíkar umbúðum dýramjólkur auk þess sem flestar ef ekki allar eru á ensku. Þá eru vörurnar að jafnaði mun dýrari en dýramjólk. Telja má því hverfandi líkur á því að neytandi taki óvart jurtamjólk í stað dýramjólkur og breytir hillumerkingin þar engu um.

Bent er á að reglugerð Evrópusambandsins um sameiginlegt markaðskerfi fyrir landbúnaðarafurðir sem skrifstofustjóri SAM vísar til hefur ekki verið innleidd hér á landi. Rétt sé að reglugerðin kveði á um þá meginreglu að heitin mjólk og mjólkurvörur megi einungis nota um tilteknar vörur en hins vegar sé að finna sérstaka undanþágu frá þeirri reglu. Þannig beri aðildarríkjum að tilkynna framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um lista yfir vörur sem þau meti svo að falli undir undanþáguna. Sérstaklega er bent á að möndlumjólk er að finna á lista t.d. Spánar og Frakklands. Kókosmjólk er á flestum listum sem og hnetusmjör, kakósmjör og möndlusmjör. Ekki sé hægt að fullyrða fyrirfram um hvaða orð munu vera á íslenska listanum og geti þannig vel verið að möndlumjólk verði á listanum og þar með heimilt að markaðssetja hana undir því nafni.

Þá er bent á að Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir undir yfirstjórn Matvælastofnunar eru hin lögbæru stjórnvöld hvað varðar matvæli, t.d. er varðar öryggi þeirra, markaðssetningu og merkingar. Hvorki Matvælastofnun né heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafi gert athugasemdir við markaðssetningu jurtamjólkur og afleiddra vara.

Bréf FA til Neytendastofu

 

Nýjar fréttir

Innskráning