Ísland gæti líka orðið frumkvöðull varðandi „belti og braut“

18.05.2018
Frá málþingi ÍKV. Frá vinstri í fremstu röð: Þorgerður Anna Björnsdóttir, Stefán Skjaldarson, Jin Zhijian og Ársæll Harðarson.

Íslensk stjórnvöld hafa enn ekki ákveðið um að skrifa undir samkomulag við Kína um þátttöku í risaverkefninu „belti og braut“ en slíkt er þó ekki útilokað, að mati Stefáns Skjaldarsonar, fyrrverandi sendiherra Íslands í Kína. Stefán bendir á að Ísland hafi að mörgu leyti verið frumkvöðull meðal Evrópuríkja í samskiptum við Kína, og þyrfti ekki að koma á óvart þótt svo yrði einnig í þessu máli.

Þetta var á meðal þess sem fram kom á málþingi Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins (ÍKV) í framhaldi af aðalfundi ráðsins í gær.

Kínverjar gætu komið að samgönguverkefnum
Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, flutti erindi um áætlun kínverskra stjórnvalda um „belti og braut“, gríðarlega uppbyggingu samgöngumannvirkja og annarra innviða, sem ætlað er að auðvelda aðgang Kína að helstu markaðssvæðum heims. Kínverjar hafa skrifað undir samstarfsyfirlýsingar um þátttöku í verkefninu við tugi ríkja, þar á meðal mörg ríki Austur- og Mið-Evrópu, en efasemdir hafa verið á meðal Vestur-Evrópuríkja um þau samkomulagsdrög sem Kínverjar hafa lagt fram. Viðræður hafa farið fram milli Íslands og Kína um hugsanlega þátttöku Íslands í verkefninu.

Jin sendiherra tiltók ýmis svið samstarfs Íslands og Kína, sem gætu tengst „belti og braut“, þar á meðal uppbyggingu samgöngumannvirkja á borð við vegi og hafnir, flugvelli, hugsanlega fluglest milli Reykjavíkur og Keflavíkur og Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu. „Kínversk fyrirtæki sem eru á heimsmælikvarða gætu skilað af sér þessum verkefnum í miklum gæðum og með skilvirkum hætti,“ sagði sendiherrann.

Hann ræddi einnig ferðamál; sagði að í fyrra hefðu 86.000 kínverskir ferðamenn komið til Íslands og vonir stæðu til að í ár yrðu þeir yfir 100.000. Beint flug á milli Íslands og Kína væri ákveðið forgangsmál hjá báðum ríkjum. Það yrði ekki eingöngu lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna, heldur gæti einnig opnað nýja möguleika í viðskiptum með ferskvöru.

Ísland oft gengið á undan
Stefán Skjaldarson rifjaði upp að Ísland hefði gert loftferðasamning við Kína árið 2003, orðið fyrst til að viðurkenna Kína sem markaðshagkerfi innan WTO árið 2005 og fyrst Evrópuríkja til að undirrita fríverslunarsamning við Kína 2013. Þá hefði Ísland verið eitt af stofnríkjum Fjárfestingarbanka Asíu (AIIB) og gæti nú verið stutt í að íslensk fyrirtæki fengju fjármögnun frá bankanum í verkefni bæði innan og utan Kína.

Stefán sagði að sem smáríki ætti Ísland hagsmuni af sem opnustum alþjóðaviðskiptum; að geta átt viðskipti við alla á grundvelli jafnræðis og gagnsæis. Íslensk utanríkisstefna byggðist á ákveðnum gildum. Ekki væri þar með sagt að hún rækist á stefnu Kínverja, en Ísland þyrfti að skoða málið vel með heildarhagsmuni að leiðarljósi. Sagan sýndi að það ætti að takast að ná samkomulagi við Kína um þátttöku í áætluninni um belti og braut; Ísland hefði oft gengið á undan í samskiptum við þetta stórveldi.

Upphaf Kínaviðskipta
Þorgerður Anna Björnsdóttir, starfsmaður Konfúsíusarstofnunar við Háskóla Íslands, vinnur nú að ritun samskiptasögu Íslands og Kína, sem ÍKV stendur að ásamt fleirum. Hún hélt afar fróðlegt erindi á málþinginu um upphaf viðskipta Íslands og Kína og sagði meðal annars frá því hvernig viðskiptin voru afar takmörkuð áður en efnt var til stjórnmálasambands milli ríkjanna í byrjun áttunda áratugarins. Það voru aðallega menn með „rauðar“ stjórnmálaskoðanir, sem fluttu inn vörur frá Kína. Voru meðal annars flutt inn loðskinn, sem notuð voru í vetrarloðhúfur Reykjavíkurlögreglunnar.

Eftir að stjórnmálasambandi var komið á, hófu fyrirtæki á borð við Xco, sem er eitt af stofnfyrirtækjum ÍKV, innflutning á matvörum frá Kína, sem náði miklum vinsældum.

Glærur Þorgerðar Önnu

Nýjar fréttir

Innskráning