Jákvætt skref hjá Mjólkursamsölunni

17.09.2015

MjólkursamkeppniFélag atvinnurekenda fagnar frumkvæði Mjólkursamsölunnar (MS) að því að stuðla að öflugri samkeppni á mjólkurmarkaði með því að lækka verð á ógerilsneyddri hrámjólk til keppinauta sinna. „Þetta er klárlega jákvætt skref hjá Mjólkursamsölunni og til marks um breyttar áherslur,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

Hann bendir á að þótt MS komi þannig til móts við þá gagnrýni sem fyrirtækið hefur fengið vegna þess hvernig það beitir markaðsráðandi stöðu sinni, dugi það ekki til að laga samkeppnisstöðuna á mjólkurmarkaði. „Samkeppnisumhverfið er áfram mjög óheilbrigt. Þrennt þarf að koma til. Í fyrsta lagi að undanþágur mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum verði afnumdar, svo og hindranir gegn samkeppni á mjólkurmarkaði í búvörulögunum. Í öðru lagi þarf að lækka tolla á innflutningi, eins og Hagfræðistofnun HÍ lagði nýlega til, þannig að innlend mjólkurframleiðsla fái meiri samkeppni. Í þriðja lagi ætti að skoða tillögur samkeppnisyfirvalda um að selja frá MS einstakar framleiðslueiningar þannig að raunveruleg samkeppni komist á.“

Nýjar fréttir

Innskráning