Kostnaður við jafnlaunavottun hleypur á milljónum

10.04.2017
Anna Kristín Kristjánsdóttir

Anna Kristín Kristjánsdóttir, varaformaður FA, segir frá því í Morgunblaðinu í dag að kostnaður hennar fyrirtækis, Hvíta hússins, af því að innleiða jafnlaunastaðal hafi varlega áætlað verið yfir fjórar milljónir, að meðtalinni vinnu stjórnenda fyrirtækisins við innleiðinguna.

Í blaðinu er fjallað um að það geti reynst flókið verkefni fyrir minni fyrirtæki að fá jafnlaunavottun, en samkvæmt frumvarpi félagsmálaráðherra eiga öll fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn að vera komin með slíka vottun innan þriggja ára. Tæplega helmingur fyrirtækja sem frumvarpið nær til eru með 25 til 50 starfsmenn, eða um 560 launagreiðendur. Mörg þeirra fyrirtækja eru í þeirri stöðu að hafa jafnvel ekki sérstakan mannauðsstjóra.

Mætti búa til fleiri hjálpargögn
Anna Kristín segir í viðtali við Morgunblaðið að vottunarferlið sé langt og tímafrekt og kalli á mikla vinnu, en ávinningurinn af því sé ótvíræður. Aðspurð hvort jafnlaunastaðallinn sé illa sniðinn að minni fyrirtækjum segir hún að hann sé mjög ítarlegur og flókið sé t.d. að meta störf og menntun og starfsreynslu hvers og eins til að uppfylla kröfur staðalsins. „Það væri hægt að einfalda þetta t.d. ef það væru tilbúnar verklagsreglur þannig að hvert og eitt fyrirtæki þurfi ekki að búa þetta til frá grunni. Það væri hægt að búa til fleiri hjálpargögn,“ segir hún í viðtalinu.

Anna Kristín segist þar einnig hafa heyrt forsvarsmenn minni fyrirtækja lýsa því að þeir treysti sér ekki í þetta verkefni. „Fólk sér fyrir sér gríðarlega vinnu og tíma og peninga og það er eðlileg hugsun. Það hafa ekki öll fyrirtæki svigrúm til að setja starfsmann í þetta verkefni.“

Umfjöllun Morgunblaðsins

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning