Langur texti, lítil svör

30.03.2016

FiskvinnslaFiskvinnslufyrirtæki án útgerðar og útgerðir sem ekki reka fiskvinnslu standa höllum fæti í samkeppni við lóðrétt samþætt útgerðar- og vinnslufyrirtæki. Þessu var slegið föstu í áliti Samkeppniseftirlitsins árið 2012, sem gefið var út í kjölfar kvörtun SFÚ til samkeppnisyfirvalda.

Í álitinu bendir Samkeppniseftirlitið á tvenns konar samkeppnishindranir, sem aðildarfyrirtæki SFÚ hafa reynt á eigin skinni.

Annars vegar hafi lóðrétt samþætt útgerðarfélög hvata til að gefa upp sem lægst verð í viðskiptum á milli útgerðar- og vinnsluhluta félagsins. Eftir því sem uppgefið verð er lægra lækkar launakostnaður útgerðarinnar og hún greiðir minna í hafnargjöld. Af þessu leiðir einnig að minni afli fer um fiskmarkaðina en ella, sem skekkir verðmyndun.

Hins vegar telja samkeppnisyfirvöld að samkeppnishindrun felist í því að samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða sé eingöngu heimilt að framselja aflaheimildir á milli aðila sem eiga og reka fiskiskip. Sú tilhögun valdi því að fiskvinnslur án útgerðar séu í mun verri stöðu en lóðrétt samþætt útgerðarfélög að verða sér úti um hráefni.

Ráðherra hefur ekkert aðhafzt…
SFÚ er eitt af samstarfsfélögum Félags atvinnurekenda. Í desember síðastliðnum skrifuðu félögin sameiginlegt bréf til Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra og spurðu hvort ekki stæði til að bregðast við meira en þriggja ára gömlum tilmælum Samkeppniseftirlitsins um að ráðherra gripi til aðgerða til að draga úr þessum samkeppnishindrunum. „FA og SFÚ lýsa vonbrigðum og undrun yfir því að ráðherra hafi kosið að aðhafast ekkert til að hrinda tilmælum Samkeppniseftirlitsins í framkvæmd, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir og ábendingar. Aðgerðaleysið er vonandi ekki til marks um að stjórnvöldum standi á sama um samkeppnishindranir í sjávarútveginum og horfi framhjá þeirri augljósu staðreynd að ekki sitja öll sjávarútvegsfyrirtæki við sama borð,“ sagði í bréfinu til ráðherra.

… og ætlar ekki að gera það
Tveir embættismenn ráðuneytisins svöruðu erindi FA og SFÚ í janúar. Textinn var langur en skilaboðin skýr: Ráðherra ætlar ekki að aðhafast nokkurn skapaðan hlut til að hrinda tilmælum Samkeppniseftirlitsins í framkvæmd. Það er þvert á það sem hann sagði á fundi FA og SFÚ um sjávarútvegsmál fyrir kosningarnar 2013, um að hann vildi beita sér fyrir aukinni samkeppni og gegnsæi á markaðnum.

Svar ráðuneytisins veldur þannig verulegum vonbrigðum og rifjar upp að það borgar sig ekki alltaf að taka mark á því sem stjórnmálamenn segja fyrir kosningar. FA og SFÚ í sameiningu munu hins vegar halda áfram að vekja athygli á því ranglæti sem viðgengst á þessum markaði og leita allra leiða til að þrýsta á stjórnvöld að draga úr samkeppnishömlum og tryggja að verðmyndun sé eðlileg og öll fyrirtæki sitji við sama borð.

SFÚ fréttir 23. mars 2016

Nýjar fréttir

Innskráning