Morgunverðarfundur ÍEV um Brexit 1. júní

18.05.2018
Jacques Lafitte

 Íslensk-evrópska viðskiptaráðið og Félag atvinnurekenda efna til morgunverðarfundar föstudaginn 1. júní um afleiðingar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu – Brexit. Fyrirlesari er Jacques Lafitte, ráðgjafi í Brussel, sem er á lista Financial Times yfir 30 „Eurostars“, þá einstaklinga sem hafa mest áhrif á stefnumótun og löggjöf Evrópusambandsins. Yfirskrift erindis Lafitte er „Brexit crunch time: what scenarios, what consequences?“

Á meðal þess sem Lafitte mun ræða í erindi sínu er eftirfarandi:
– Brexit frá sjónarmiði ríkjanna 27 sem verða eftir í ESB
– Getur Bretland farið yfir eitthvert af „rauðu strikunum“ varðandi Evrópudómstólinn, innri markaðinn eða tollabandalagið? Mun það gera það?
– Vandamálið varðandi landamæri Bretlands og Írlands og náin tenging þess við umræður um hvort Bretland geti verið í tollabandalagi við ESB
– Hversu líklegt er að ekkert samkomulag náist milli Bretlands og ESB? Hverjar yrðu afleiðingarnar af því?
– Hvað geta íslensk fyrirtæki gert til að takmarka skaðann af Brexit?
 
Jacques Lafitte er einn af stofnendum og eigendum ráðgjafafyrirtækisins Avisa Partners, sem starfar í Brussel og París. Hann hefur átt langan feril í stjórnsýslu Þýskalands, Frakklands og Evrópusambandsins og var meðal annars einn af nánum samstarfsmönnum Yves-Thibault de Silguy, sem stýrði upptöku evrunnar. Lafitte starfaði síðan hjá Microsoft áður en hann stofnaði ráðgjafafyrirtæki sitt.
 
Anna Kristín Kristjánsdóttir

Fundarstjóri er Anna Kristín Kristjánsdóttir, varaformaður FA.

Fundurinn verður haldinn í fundarsal Félags atvinnurekenda á 9. hæð í Húsi verslunarinnar, Kringlunni 7 og stendur frá kl. 8.30 til kl. 10.00. Léttur morgunverður í boði. Aðgangur er ókeypis en nauðsynlegt að skrá sig hér neðar á síðunni.

Nýjar fréttir

Innskráning