Ráðuneyti rýmki fyrir innflutningi til að tryggja fæðuöryggi

14.04.2015

Innflutningur á svínakjöti hefur margfaldast síðustu misseri vegna skorts á innanlandsmarkaði.

Félag atvinnurekenda hefur sent atvinnuvegaráðuneytinu erindi og farið fram á að ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarafurða verði kölluð saman vegna yfirvofandi verkfalls dýralækna. Fari dýralæknar í verkfall næstkomandi mánudag stöðvast slátrun í landinu og stutt er þá í skort á svína-, kjúklinga- og nautakjöti í verslunum.

Í bréfi Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, til ráðuneytisins er bent á að landbúnaðarráðherra ber skylda til þess, samkvæmt 65. grein búvörulaga, að gefa út opinn innflutningskvóta á lægri tollum, þegar framboð búvöru er ekki nægjanlegt á innanlandsmarkaði. „Félag atvinnurekenda fer þess á leit við ráðuneytið að það kalli saman ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarafurða og nefndin undirbúi að gefa þegar í stað út opinn tollkvóta fyrir fjölbreytilegt úrval nauta-, alifugla- og svínakjöts, komi til verkfalls,“ segir í bréfinu.

Þar segir ennfremur: „Með skjótum viðbrögðum nefndarinnar og ráðherra má afstýra kjötskorti og tryggja fæðuöryggi landsmanna. Aðgerðaleysi stjórnvalda mun á hinn bóginn, að óbreyttu, valda skorti á nauðsynlegum matvælum, skerða lífsgæði og skaða allan almenning í landinu.“

Bréf FA til atvinnuvegaráðuneytisins

Nýjar fréttir

Innskráning