Ríkið í hraðvaxandi samkeppni við innlenda verslun

12.11.2015
Nærfataverslun ríkisins í Leifsstöð. Mynd: Fríhöfnin.
Nærfataverslun ríkisins í Leifsstöð. Mynd: Fríhöfnin.

Vörusala Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli hefur aukist um 44% undanfarin fjögur ár. Á fimm ára tímabili hefur ríkisbúðin selt vörur fyrir 35 milljarða króna. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í Viðskiptamogganum í dag, en framkvæmdastjóri FA og fleiri talsmenn verslunarinnar gagnrýna þar vaxandi umsvif ríkisins í smásölu.

Í frétt Morgunblaðsins eru rifjuð upp nýleg bréfaskipti FA við fjármálaráðuneytið vegna pöntunarþjónustu Fríhafnarinnar. „Starfsemi Fríhafnarinnar er orðin gríðarlega umfangsmikil og löngu komin út fyrir hefðbundna fríhafnarverslun með hágjaldavörur eins og áfengi og tóbak,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, í viðtali við blaðið.

Hann nefnir að komuverslunin Í Leifsstöð eigi sér fáar hliðstæður annars staðar. „Komuverslunin er fyrst og fremst mjög hörð samkeppni ríkisins við innlenda verslun. Vöruúrvalið er orðið þannig að þetta er allt saman orðið afskaplega hæpið. Ríkið er orðið stærsti snyrtivörusali landsins, er mjög stórt í sælgætissölu og er að færa út kvíarnar í sölu á nærfötum og fylgihlutum. Það nær ekki nokkurri átt hvernig þessi starfsemi hefur þanist út.“

Ólafur segir að stjórnvöld hlusti lítið á gagnrýni á starfsemin Fríhafnarinnar og virðist ekki hafa neina skoðun á henni. Hann bendir á að það hafi tekið fjármálaráðuneytið 11 vikur að svara erindi FA og þegar svar hafi loks borist hafi ekki verið um nein efnisleg svör að ræða.

Umfjöllun Morgunblaðsins

Nýjar fréttir

Innskráning