Ríkið stefnir að farmiðaútboði fljótlega

13.03.2015

FjarmalaraduneytiFjármálaráðuneytið sendi frá sér tilkynningu í dag, þar sem upplýst er að útboð á flugfarmiðum vegna ferða ríkisstarfsmanna muni fara fram á fyrri hluta ársins. Félag atvinnurekenda fagnar þessari niðurstöðu, enda hefur félagið gagnrýnt harðlega að tvö og hálft ár skuli hafa liðið án þess að flugferðir ríkisins væru boðnar út.

„Við fögnum að sjálfsögðu þessari niðurstöðu. Útboð á flugfarmiðum var ekki á lista yfir fyrirhuguð rammasamningsútboð Ríkiskaupa á árinu, sem var birtur í Fréttablaðinu 28. febrúar. Þannig að fjármálaráðuneytið hefur brugðist hratt við þeirri gagnrýni sem FA og fleiri hafa haft uppi á fyrirkomulag þessara mála,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Útboð á þessari þjónustu mun án efa hafa í för með sér sparnað fyrir skattgreiðendur og þýðir jafnframt að keppinautum Icelandair verður hleypt að borðinu þar sem stærsta flugfélagið hefur að mestu leyti verið eitt um þessa feitu bita.“

Í niðurlagi tilkynningar fjármálaráðuneytisins segir: „Í útboði vegna farmiðakaupa árið 2011 kom skýrt fram í fylgigögnum að einstaklingi ætti ekki að vera mögulegt að afla sér fríðinda fyrir ferðir sem farnar eru á vegum ríkisins. Ríkið hefur áður haldið fram slíkum kröfum. Icelandair hefur verið öndverðrar skoðunar og sagt að ferðapunktar breyti engu um viðskiptakjör greiðandans, ríkisins, og séu því greiðandanum í raun óviðkomandi. Í því útboði sem nú er unnið að vegna innkaupa á flugsætum fyrir starfsmenn ríkisins til og frá landinu, er eins og áður haft að leiðarljósi að einkahagsmunir þess starfsmanns  sem ferðast hverju sinni ráði ekki vali á flugfélagi.“

Ólafur bendir á að þegar útboðið var endurtekið árið 2012 hafi verið búið að taka út ákvæðið um að vildarpunktar ættu ekki að fylgja ferðum á vegum ríkisins. Nú sé hins vegar skýrt hver vilji ríkisins sé. „Með þessu er fjármálaráðuneytið í raun að viðurkenna að núverandi fyrirkomulag feli í sér hættu á að vildarpunktarnir hafi áhrif á með hvaða flugfélagi er flogið. Það er einmitt það sem við bentum á og gott að það verði útilokað í framtíðinni“ segir Ólafur.

Sjá tilkynningu fjármálaráðuneytisins

Viðtal við Ólaf Stephensen á RÚV

Nýjar fréttir

Innskráning