Skjáfylli af smáletri heyrir sögunni til

08.11.2016

lyfjasjonvarpÞað heyrir nú sögunni til að þegar lyf eru auglýst í sjónvarpi birtist í örskotsstund í lok auglýsingar skjáfylli af texta með örsmáu letri sem enginn getur lesið. Heilbrigðisráðherra birti í dag nýja reglugerð um auglýsingar á smásölulyfjum, þar sem tekið hefur verið tillit til ýmissa ábendinga og tillagna Félags atvinnurekenda um hvernig mætti gera lyfjaauglýsingar einfaldari og aðgengilegri.

Reglugerðin er meðal annars sett til innleiðingar Evrópureglna um lyfjaauglýsingar. Í fyrstu drögum hennar var meðal annars gert ráð fyrir birtingu alltof umfangsmikilla upplýsinga í lyfjaauglýsingum, til dæmis um skammtastærðir, pakkningastærðir og allar mögulegar aukaverkanir viðkomandi lyfs, en í sumum tilvikum geta þær numið tugum. Þá var gert ráð fyrir að mismunandi kröfur væru gerðar til birtingar upplýsinga eftir því í hvers konar miðli auglýsingin birtist.

FA gerði athugasemdir við þetta og hvatti til þess að kröfurnar yrðu samræmdar og einfaldaðar. Hvatti félagið til þess að ráðuneytismenn beittu heilbrigðri skynsemi til að átta sig á að þegar auglýst væri til dæmis á flettiskiltum og í sjónvarpi væri engin leið að koma slíku upplýsingamagni að með skynsamlegum eða skiljanlegum hætti. Þá lagði félagið áherslu á að ekki væri bætt við íþyngjandi kröfum til lyfjaauglýsinga á Íslandi, sem ekki ættu sér stoð í Evróputilskipuninni sem verið væri að innleiða.

Dregið úr umfangi upplýsinga
FA fagnar því að ráðuneytið hafi að verulegu leyti tekið tillit til þessara athugasemda. Í tilkynningu um setningu nýju reglugerðarinnar kemur fram að skerpt hafi verið á þeim upplýsingum sem þurfa að birtast í auglýsingum um lausasölulyf og hins vegar dregið verulega úr umfangi þeirra upplýsinga sem þarf að birta eða lesa upp með hverri auglýsingu. „Eins og auglýsingar hafa verið birtar til dæmis í sjónvarpi til þessa hafa notendur vart átt möguleika á að meðtaka nema brot þeirra upplýsinga sem settar eru fram. Viðamiklar upplýsingar, smátt letur og skammur birtingartími á skjánum hefur gert þetta að verkum,“ segir ráðuneytið.

Í lyfjaauglýsingum fyrir almenning skulu samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar koma fram a.m.k. eftirfarandi upplýsingar:

  • Heiti lyfs, ásamt samheiti ef lyfið inniheldur aðeins eitt virkt efni
  • Lyfjaform
  • Ábending eða ábendingar lyfs, þ.e. í hvaða tilgangi leyfilegt er að nota lyfið
  • Nauðsynlegar upplýsingar fyrir rétta notkun lyfsins

Auk þessa skal birta eftirfarandi skilaboð orðrétt: „Lesið vandlega upplýsingar á umbúðum og fylgiseðli fyrir notkun lyfsins. Leitið til læknis eða lyfjafræðings sé þörf á frekari upplýsingum um áhættu og aukaverkanir. Sjá nánari upplýsingar um lyfið á www.serlyfjaskra.is.“

Reglugerð um lyfjaauglýsingar

Athugasemdir FA við fyrri drög reglugerðarinnar

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning