Stuðningsaðgerðir 2.0

20.08.2020

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 20. ágúst 2020.

Stuðningsaðgerðir stjórnvalda við fyrirtæki vegna heimsfaraldurs COVID-19 veirunnar hafa í meginatriðum reynzt vel og auðveldað atvinnulífinu að takast á við afleiðingar faraldursins. Félag atvinnurekenda hefur þó vakið athygli á því að undanförnu að endurskoða þurfi stuðningsaðgerðirnar í heild, annars vegar með hliðsjón af því hvað hefur virkað vel og hvað ekki og hins vegar með tilliti til þess að faraldurinn er langdregnari en margir vonuðu þegar stuðningsaðgerðir voru ákveðnar síðastliðið vor.

Hlutabótaleiðin, stuðningslán, og styrkir vegna launagreiðslna á uppsagnarfresti og vegna greiðslna til starfsmanna í sóttkví eru dæmi um aðgerðir sem hafa nýtzt vel. Brúarlánin eru hins vegar dæmi um aðgerð sem hefur ekki hitt í mark; umsóknir um slík lán eru sárafáar og veitt lán teljandi á fingrum annarrar handar. Spurn eftir lokunarstyrkjum er sömuleiðis minni en búizt var við og dæmi um að fyrirtæki, sem sótt hafa um þá og talið sig uppfylla öll skilyrði, hafa fengið synjun hjá Skattinum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í fréttum Stöðvar 2 í vikunni að vel kæmi til greina að endurskoða einhverjar aðgerðir, þótt á heildina litið hefði tekizt vel til. Það er jákvætt að stjórnvöld eru til í það samtal.

Forstjóri Vinnumálastofnunar sagði á upplýsingafundi almannavarna á fimmtudag í síðustu viku að ekki væri að hennar mati þörf á framlengingu hlutabótaleiðarinnar, þar sem launþegum á hlutabótum hefði fækkað hratt í sumar, meðal annars af því að betur hefði gengið hjá ferðaþjónustunni. Forsendur breyttust rækilega daginn eftir, þegar tilkynnt var um auknar hömlur á landamærunum. Útlitið varð ekki eingöngu mun svartara hjá ferðaþjónustufyrirtækjum, heldur fjölda fyrirtækja sem þjónusta ferðamannageirann. Stjórnvöld þurfa nú að bregðast hratt við og lengja í stuðningsaðgerðum, ekki sízt hlutabótaleiðinni sem á að renna sitt skeið í lok mánaðarins.

Nýjar fréttir

Innskráning