Það sem vantar í áfengisfrumvarpið

07.03.2020

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA á frettabladid.is 7. mars 2020

Af hverju er engin greining í frumvarpsdrögunum á áhrifum áformaðrar lagasetningar á ÁTVR?ínbúð

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur birt drög að frumvarpi til laga, sem heimilar innlendum aðilum netverzlun með áfengi. Markmið laganna er sagt að tryggja jafnræði milli innlendrar og erlendrar verzlunar, sem er gott markmið sem Félag atvinnurekenda styður. Félagið hefur hins vegar í umsögn sinni um málið bent á ýmis atriði, sem vantar í frumvarpið og greinargerð þess, eigi að koma í veg fyrir að frumvarpið skapi nýtt ójafnræði í viðskiptum og nýjar samkeppnishömlur. FA hefur jafnframt bent ráðuneytinu á að ýmis atriði frumvarpsins virðist ekki hugsuð til enda.

Af hverju er auglýsingabann ekki afnumið?
Það fyrsta sem stingur í augu er að í greinargerð draganna eru færð ágæt rök fyrir því að afnema bann við áfengisauglýsingum – en engu að síður tekið fram að slíkt afnám standi ekki til með þessu frumvarpi. Rökin sem ráðuneytið færir fram eru þau sem FA hefur oft bent á; að auglýsingabannið bitni á innlendum framleiðendum, sem fá ekki að auglýsa vörur sínar um leið og auglýsingar frá erlendum áfengisframleiðendum eiga greiðan aðgang að íslenzkum neytendum í gegnum erlenda fjölmiðla og vefsíður.

FA hefur jafnframt bent á önnur rök fyrir afnámi auglýsingabannsins. Stórar smásölukeðjur á matvörumarkaði hafa lýst því yfir að þær muni starfrækja netverzlun með áfengi, verði frumvarpið að lögum. Samþjöppun í smásölu á matvörumarkaði er óvíða meiri en hér á landi. Það liggur beint við að ætla að verzlanakeðjurnar bjóði upp á þá þjónustu að fólk panti áfengi á netinu og sæki í næstu búðarferð, sem er til mikils þægindaauka fyrir neytendur. Ætla má að stór hluti áfengissölu fari í þennan farveg og smásölukeðjurnar hafi þá mikil áhrif á það hvað er keypt með því að halda eigin innflutningi að neytendum. Heildsalar áfengis munu hins vegar ekki hafa nein tækifæri til að vekja athygli á vörum sínum ef auglýsingabannið er áfram við lýði og í því felst verulegt ójafnræði.

Það liggur því beint við að spyrja: Af hverju tekur ráðherra ekki röksemdafærsluna alla leið og afnemur auglýsingabannið um leið og fyrirkomulagi smásölu er breytt?

Hvað á að verða um ÁTVR?
Annað gat í frumvarpsdrögunum er jafnvel meira æpandi. Þar er tekið fram að Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins verði starfrækt áfram og muni áfram hafa einkarétt á hefðbundinni smásölu áfengis. Engin tilraun er gerð til að meta hver áhrif frumvarpsins verði á ÁTVR. Það liggur þó alveg ljóst fyrir að þau verða gríðarlega mikil, meðal annars af eftirfarandi ástæðum:

  • Viðskipti með áfengi munu færast í miklum mæli yfir í netverzlun – sem vegna hraðrar tækniþróunar verður æ minna frábrugðin hefðbundinni smásölu. Þetta á alveg sérstaklega við þar sem stóru matvörukeðjurnar ætla sér augljóslega drjúgan hlut á þessum markaði.
  • Birgjum, sem vilja væntanlega frekar selja vörur í gegnum eigin vefverzlun en í gegnum ÁTVR, er í lófa lagið að bjóða vöru sína á hærra verði í ÁTVR en í vefverzluninni. Viðskiptin leita að sjálfsögðu þangað sem verðið er lægra.
  • ÁTVR hefur að óbreyttum lögum takmarkað svigrúm til að bregðast við verðsamkeppni, þar sem álagning stofnunarinnar er lögbundin.
  • ÁTVR rekur í dag sína eigin vefverzlun. Með lagabreytingunni verður orðinn til markaður, þar sem ríkisstofnun keppir beint við einkaaðila. Við höfum afleita reynslu af slíku, en þar sem slík samkeppni er fyrir hendi, gilda þó víðast um hana einhverjar reglur og einhver hefur eftirlit með því að eftir þeim sé farið. Ekkert slíkt er að finna í frumvarpsdrögum dómsmálaráðherra.
  • Undanþága norrænu ríkjanna fjögurra sem reka áfengiseinkasölur frá samkeppnisákvæðum EES-samningsins grundvallast á „mikilvægum sjónarmiðum er varða stefnu þeirra í heilbrigðis- og félagsmálum“ eins og það er orðað í samningnum.

Fáeinar spurningar í viðbót
Það er þess vegna fyllsta ástæða til að spyrja ráðherra nokkurra spurninga, sem hún og starfsmenn hennar í ráðuneytinu ættu a.m.k. að vera búin að hugsa út í svörin við áður en fullbúið frumvarp verður lagt á Alþingi, eins og ráðherra hefur boðað að verði gert í mánuðinum.

  1. Hvernig á að bregðast við mögulegum taprekstri ÁTVR ef reyndin verður sú að stór hluti áfengissölu færist frá stofnuninni? Eiga skattgreiðendur að hlaupa undir bagga eins og í tilviki Íslandspósts eða á að fækka sölustöðum og skerða þjónustu?
  2. Hvaða reglur eiga að gilda um fjárhagsleg samskipti einkaréttarhluta ÁTVR (hefðbundinnar smásölu) og samkeppnishlutans, þ.e. netverzlunarinnar? Hver á að hafa eftirlit með að eftir þeim reglum sé farið?
  3. Ef stór hluti áfengisverzlunar í landinu er ekki lengur í ríkiseinkasölu, heldur þá sú undanþága sem Ísland hefur frá samkeppnisreglum Evrópuréttarins samkvæmt EES-samningnum? Eru rökin fyrir ríkiseinkasölu á afmörkuðu sviði smásölumarkaðar þá ekki gufuð upp og eins gott að hætta þessum ríkisrekstri?
  4. Hvaða reglur munu gilda um það hvernig ÁTVR hagar sér gagnvart birgjum sem stofnunin er í beinni samkeppni við? Munu núverandi reglur um vöruval til dæmis gilda áfram?

Eins og áður sagði bendir flest til þess að í ráðuneytinu hafi ekki verið hugsað út í áðurnefnd atriði – og ýmis fleiri – þegar frumvarpið var samið. Nema auðvitað að markmiðið sé annaðhvort að kippa rekstrargrundvellinum undan ÁTVR og/eða búa til samkeppni ríkisins og einkaaðila á nýju sviði (og nóg er nú samt). Ef það er málið á bara að segja það umbúðalaust – en sé meiningin að búa til sanngjarnt og frjálst lagaumhverfi áfengismarkaðar þarf að vanda þessa lagasmíð langtum betur.

Nýjar fréttir

Innskráning