Tímabært að huga að styttingu vinnuvikunnar

10.10.2019

Félag atvinnurekenda vill minna félagsmenn sína á að gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi vinnutíma starfsmanna sem eiga aðild að VR, en breytt ákvæði um vinnutíma samkvæmt kjarasamningi FA og VR taka gildi um áramót.

Samkvæmt kjarasamningi VR og FA verður virkur vinnutími fyrir fulla dagvinnu 35 klst. og 30 mínútur frá og með 1. janúar 2020. Það samsvarar 7 klst. og 6 mínútna virkum vinnutíma á dag,, þ.e. án allra neysluhléa svo sem kaffihléa eða hádegishléa.

Í kjarasamningi VR og FA kemur fram að atvinnurekendur skulu hafa samráð við launamenn um tillögu að útfærslu vinnutímastyttingar og eru jafnframt tekin dæmi um mögulegar útfærslur vinnutímastyttingar, t.d.:

  1. Hver dagur styttist um 9 mínútur
  2. Hver vika styttist um 45 mínútur
  3. Safnað upp innan ársins
  4. Vinnutímastyttingu með öðrum hætti.

Þá er sérstaklega tekið fram í kjarasamningnum að samkomulag skuli liggja fyrir á vinnustað fyrir 1. desember 2019. Ef ekki, þá styttist vinnutími um 9 mínútur á dag miðað við fullt starf, sbr. tillögu a. í kjarasamningi VR og FA.

Tillögur að mögulegum útfærslum á vinnutímastyttingu hafa verið birtar á vefsíðu VR og eru félagsmenn hvattir til að skoða þær.

Að mati FA felast tækifæri bæði fyrir fyrirtækin og starfsmenn þeirra í þeirri vinnu sem þarf að fara fram áður en ákvörðun er tekin um útfærslu styttingar vinnutíma. Líkt og framkvæmdastjóri FA ræddi á kynningarfundi um kjarasamninginn í vor, er mikilvægt að hlusta á hugmyndir starfsfólks. Þá skiptir máli að kortleggja álagstoppa í starfseminni. Kjarasamningur FA og VR er sveigjanlegur og kveður á um að dagvinnu megi skipuleggja á bilinu kl. 7 til 19. Ein lausn vinnutímastyttingar getur verið að fólk mæti á mismunandi tímum til að tryggja mönnun á álagstoppum en að fólk njóti frítíma þegar minna er að gera. Rækileg greining á vinnutímafyrirkomulagi í fyrirtækjum getur leitt af sér hugmyndir að vinnusparnaði og skilvirkari úrlausn verkefna, sem þýðir að bæði starfsfólk og fyrirtæki hafi áþreifanlegan hag af breytingu á skipulagi vinnutímans.

Ef einhverjar spurningar vakna í tengslum við framkvæmd vinnutímastyttingar eru félagsmenn hvattir til að hafa samband við lögfræðing FA, Jónatan Hróbjartsson.

Nýjar fréttir

Innskráning