Tveggja metra reglan og handþvottur í gildi til langs tíma

04.05.2020
Íris Marelsdóttir og Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA ræddu við félagsmenn frá skrifstofu FA.

Reglan um tveggja metra fjarlægð á milli fólks og sóttvarnaráðstafanir á borð við handþvott og sprittun eru lykilatriði í að vernda fólk og fyrirtæki fyrir COVID-19 veirunni og verða í gildi áfram, þótt slakað verði á samkomubanni. Þetta kom fram í máli Írisar Marelsdóttur, verkefnisstjóra á sóttvarnasviði embættis landlæknis, á fjarfundi með félagsmönnum FA í dag. Íris lagði áherslu á ábyrgð fyrirtækja, sem þurfa áfram að minna viðskiptavini sína á grundvallaratriði eins og að halda bilinu, spritta hendur og að gæta þess að ekki séu fleiri en 50 í hverju rými.

Íris sagði skipta miklu máli að fólk fyndi að fyrirtæki, sem taka á móti viðskiptavinum, huguðu vel að sóttvörnum og segðu viðskiptavinunum til. Það skapaði öryggiskennd og traust, sem væri ein forsenda þess að viðkvæmir hópar í samfélaginu treystu sér aftur út fyrir hússins dyr.

„Tveggja metra reglan og sóttvarnir á borð við handþvott og handsprittun eru alls ekki að fara að detta niður. Frekari tilslakanir verða vonandi síðar í vor varðandi það að leyfa fleirum að koma saman, en fólk þarf áfram að gæta varúðar og hreinlætis.

Handþvottur frekar en hanskar
Sóttvarnalæknir ráðleggur  ekki notkun hanska í verslunum eða öðrum fyrirtækjum, hvorki hjá starfsmönnum né hjá  viðskiptavinum. Það er fremur hæfileg fjarlægð (2 metra reglan) og handþvottur sem gerða gagn, að sögn Írisar.

Íris fékk ýmsar spurningar frá félagsmönnum. Spurt var hvar ábyrgðin lægi varðandi t.d. skyldu eigenda fyrirtækja til að gefa viðskiptavinum leiðbeiningar. Hún svaraði því til að fyrirtæki þyrftu að gefa leiðbeiningar um tveggja metra fjarlægð og handþvott, gera grein fyrir því að snertifletir væru þrifnir reglulega og að rekstraraðili tryggði  að ekki væru fleiri en 50 í hverju rými. Þá væru þau með hreint borð gagnvart sóttvarnalækni. Ef hins vegar það kæmi í ljós að fyrirtæki væri með t.d. 100 manns í sama rými, hefði engar leiðbeiningar frammi og nefndi ekki sóttvarnir, gætu viðskiptavinir sent inn formlega kvörtun og slíkt erindi færi þá til lögreglu, sem framfylgir sóttvarnaráðstöfunum. Lítið hefði borist af slíkum kvörtunum en margir vilja vera með í liði og kveða pestina niður.

Engin dæmi um vöruskort
Íris var spurð hvort einhver smit hefðu verið rakin til matvöruverslana og sagðist hún ekki þekkja dæmi slíks. Hún sagði að hjá sóttvarnalækni hefði fólk búist við að vöruskortur myndi koma upp vegna heimsfaraldursins, en staðreyndin væri sú að vöruskorts hefði ekki orðið vart og engar tilkynningar borist um slíkt.

Einnig var spurt hvort fyrirtæki sem hefðu skipt veitinga- eða verslunarrými upp í svæði þyrftu að viðhafa stranga talningu í hverju rými, eða hvort hægt væri að treysta viðskiptavinum til að sjái til þess sjálfir að jafna fjöldann á milli rýma. Íris svaraði því til að fyrirtæki væru beðin að skipta upp í 50 manna rými og  að hafa áfram augað á því hvernig flæðið væri, t.d. í verslunum, og hvernig viðskiptavinir haga sér. Mikilvægt væri að minna fólk á mikilvægi sóttvarnaráðstafana. Hún vísaði einnig til leiðbeininga, sem birtar hafa verið á vef Ferðamálastofu um fjöldatakmarkanir á veitingahúsum og gististöðum.

Fyrirspurnum svarað allan daginn
Spurt var hvert fyrirtækin gætu leitað um leiðbeiningar til útfærslu á þeim reglum, sem nú eru í gildi um fjöldatakmarkanir og sóttvarnir. Íris benti á netföngin svl@landlaeknir.is og covid19@landlaeknir.is. Starfsfólk svaraði fyrirspurnum sem sendar væru á þessi netföng allan daginn. Hún sagði að sóttvarnasviðið væri of fáliðað til að heimsækja fyrirtæki, en leitaðist við að gefa leiðbeiningar símleiðis eða í tölvupósti og vísa á frekari upplýsingar

Nýjar fréttir

Innskráning