Vinna nefndar um sjávarútveg taki á samkeppnishömlum

17.12.2021

Félag atvinnurekenda (FA) og samstarfsfélag þess, Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ), skora á Svandísi Svavarsdóttur sjávarútvegsráðherra að tryggja að horft verði til tvöfaldrar verðlagningar í sjávarútvegi og þeirra samkeppnishindrana í greininni, sem Samkeppniseftirlitið hefur bent á, í starfi nefndar sem samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna á að fjalla um sjávarútveginn.

Nefndin á að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfsins. Hún á meðal annars að leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar. Þá á hún að fjalla um  hvernig hægt er að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi.

Samtökin tvenn segja í erindi sínu til ráðherra ða þau telji einkar mikilvægt að í starfi nefndarinnar verði hugað að starfs- og samkeppnisskilyrðum sérhæfðra fiskvinnslna, þ.e. vinnslufyrirtækja sem ekki reka jafnframt eigin útgerð, heldur eru háð fiskmörkuðum um hráefnisöflun. „Um er að ræða tugi fyrirtækja, sem starfa víða um land og skapa hundruð starfa. Þessi fyrirtæki hafa unnið mikilvægt brautryðjendastarf við öflun markaða og vöruþróun í fiskvinnslu og framlag þeirra til bættrar nýtingar auðlindarinnar hefur verið umtalsvert,“ segir í bréfinu sem Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA og Arnar Atlason formaður SFÚ undirrita.

„Eitt af því sem stendur rekstri þessara fyrirtækja fyrir þrifum er skert samkeppnisstaða vegna svokallaðrar tvöfaldrar verðlagningar í sjávarútvegi. Uppgjörsverð vinnslu- og útgerðarfyrirtækja í innri viðskiptum er mun lægra en verð það sem fæst fyrir fiskinn á fiskmörkuðum. Tvöfalda verðlagningin er að mati samtakanna eitt af því sem stendur í vegi fyrir því að samfélagsleg sátt ríki um sjávarútveg á Íslandi og að greinin skili þeim verðmætum til samfélagsins sem hún gæti og ætti að gera. Bent hefur verið á að hagur útgerðarmanns geti verið meiri af því að minnka virði vörunnar heldur en að auka virði hennar, þvert á hag þjóðarinnar,“ segir í erindinu.

Ekkert gert með álit Samkeppniseftirlitsins frá 2012
Rifjað er upp álit Samkeppniseftirlitsins (SE) frá árinu 2012, en þar var tilmælum beint til þáverandi sjávarútvegsráðherra í framhaldi af kvörtun SFÚ.  SE fjallaði annars vegar um samkeppnisstöðu útgerða sem ekki stunda fiskvinnslu og hins vegar fiskvinnslufyrirtækja sem ekki stunda jafnframt veiðar á sjávarafla, gagnvart lóðrétt samþættum útgerðum sem bæði stunda veiðar og vinnslu. Að mati SE hefur aðstöðumunur þessara fyrirtækja tvenns konar samkeppnishindranir í för með sér.

Annars vegar hafa lóðrétt samþætt útgerðarfélög hvata til að gefa upp sem lægst verð á afla í innri viðskiptum á milli útgerðarhluta og vinnsluhluta fyrirtækisins. Eftir því sem verð á aflanum sem seldur er til fiskvinnslu í eigu útgerðarfyrirtækis er lægra þeim mun lægri verður launakostnaður viðkomandi útgerðar og hafnargjöld af lönduðum afla. Bæði aflahlutdeild sjómanna og hafnargjöld miðast við uppgefið aflaverðmæti. Af framangreindu leiðir einnig að minni sjávarafli fer um fiskmarkaði en ella, sem skekkir verðmyndun á mörkuðum.

Hins vegar felst samkeppnishindrun í því að mati SE að samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða er einungis heimilt að framselja aflaheimildir á milli aðila sem eiga og reka fiskiskip. Sú tilhögun veldur því að aðilar sem stunda fiskvinnslu en enga útgerð eru í verri aðstöðu en lóðrétt samþætt útgerðarfélög til að verða sér út um hráefni. Þetta þekkja aðildarfyrirtæki SFÚ af eigin raun.

Í áliti Samkeppniseftirlitsins var mælst til þess að ráðherra beitti sér fyrir því að dregið yrði úr þeim samkeppnislegu vandamálum sem leiða af lagaumhverfi sjávarútvegs að þessu leyti. Að mati stofnunarinnar eru að minnsta kosti fjórar leiðir færar til að draga úr samkeppnishindrunum:

  1. Beita sérstökum milliverðlagningarreglum. Milliverðlagningarreglur hafa það að markmiði, í þessu tilviki, að verðlagning í innri viðskiptum á milli útgerðar- og fiskvinnsluhluta lóðrétt samþættrar útgerðar verði eins og um viðskipti milli tveggja óskyldra aðila sé að ræða.
  2. Koma í veg fyrir að skip útgerðar sem ekki er samþætt greiði hlutfallslega hærri hafnargjöld með því að miða aflagjöld hafna við önnur hlutlæg viðmið, t.d. landað magn eða fiskverð sem væri ákveðið af óháðum opinberum aðila.
  3. Ráðherra getur breytt hinu lögákveðna fyrirkomulagi laga um Verðlagsstofu skiptaverðs þess efnis að útgerðarmenn komi með beinum hætti að ákvörðun um svokallað Verðlagsstofuverð sem útgerðir notast við í innri viðskiptum á milli útgerðarhluta og fiskvinnsluhluta fyrirtækjanna.
  4. Heimildir til kvótaframsals verði auknar en slík breyting væri til þess fallin að jafna aðstöðumun fiskvinnslna án útgerðar gagnvart fiskvinnslu samþættra útgerða til að verða sér út um hráefni til vinnslunnar.

„Skemmst er frá því að segja að forverar ráðherrans, allir með tölu frá 2012, hafa lítið eða ekkert gert til að bregðast við þessum tilmælum Samkeppniseftirlitsins,“ segir í erindi samtakanna.

Erindi FA og SFÚ til sjávarútvegsráðherra

Umfjöllun Morgunblaðsins og 200 mílna

Nýjar fréttir

Innskráning