Lækkun tryggingagjalds fagnað – en betur má ef duga skal

08.04.2016

TryggingagjaldFélag atvinnurekenda fagnar nýlega framkomnu frumvarpi fjármálaráðherra sem kveður meðal annars á um 0,5 prósentustiga lækkun tryggingagjaldsins 1. júlí næstkomandi. Félagið leggur áherslu á að frumvarpið verði að lögum í tíma. FA bendir þó á að verulega vantar enn upp á að hækkun tryggingagjaldsins í kjölfar hrunsins hafi verið tekin til baka.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd var tryggingagjaldið 5,34% af launakostnaði árið 2007. Hæst varð gjaldið 8,65% árið 2010. Á núverandi kjörtímabili hefur gjaldið lækkað í áföngum um 0,34 prósentustig, sem óhætt er að segja að hafi verið langt undir væntingum atvinnulífsins eftir fyrirheit núverandi stjórnarflokka um lækkun skatta á fyrirtæki. Skatturinn stendur nú í 7,35%. Verði frumvarp fjármálaráðherra samþykkt verður tryggingagjaldið 6,85% eftir 1. júlí næstkomandi. Enn vantar því 1,5 prósentustig upp á að skatturinn verði jafnhár og hann var fyrir hrun.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, bendir á að rökin fyrir gífurlegri hækkun tryggingagjaldsins hafi verið snögg aukning atvinnuleysis, en með batnandi atvinnustigi séu tekjurnar af gjaldinu í vaxandi mæli notaðar til að fjármagna önnur útgjöld ríkisins en atvinnuleysistryggingar. „Lækkun tryggingagjaldsins er líka gríðarlega mikilvæg til að auðvelda fyrirtækjum að standa undir mjög miklum launahækkunum sem kjarasamningar á almennum vinnumarkaði kveða á um. Ríkisvaldið ber umtalsverða ábyrgð á að launahækkanir í samningunum urðu jafnmiklar og raun ber vitni, með samningum sínum við opinbera starfsmenn. Það er þá líka ríkisvaldsins að koma til móts við fyrirtækin og auðvelda þeim að mæta þessum gífurlegu hækkunum launakostnaðar,“ segir Ólafur.

Tillögur FA um lækkun tryggingagjaldsins

Nýjar fréttir

Innskráning