Skriffinnska við vegabréfsáritanir hindrun í vegi kínverskra ferðamanna

13.05.2015
Zhang Weidong sendiherra Kína kvaddi gesti málstofunnar með tilþrifum.
Zhang Weidong sendiherra Kína kvaddi gesti málstofunnar með tilþrifum.

Mikil skriffinnska og umstang við að fá vegabréfsáritun til Íslands, eins og annarra aðildarlanda Schengen-samkomulagsins, er hindrun í vegi kínverskra ferðamanna sem vilja sækja Ísland heim. Þetta var á meðal þess sem fram kom á fjölsóttri málstofu Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins (ÍKV) og Íslandsstofu á Hótel Hilton Reykjavík Nordica í morgun.

Yfirskrift málstofunnar var „Kínverskir ferðamenn á Íslandi – áskoranir og tækifæri“. Frummælendur voru Zhang Weidong, sendiherra Kína á Íslandi, Ársæll Harðarson, formaður ÍKV og svæðisstjóri hjá Icelandair, Þorleifur Þór Jónsson, forstöðumaður viðskiptasendinefnda hjá Íslandsstofu og Mikko Rautio, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Finnair.

Í máli Þorleifs kom fram að flókið væri fyrir Kínverja að sækja um vegabréfsáritun til Íslands og annarra ríkja Schengen-svæðisins. Fjórðungur þeirra sem ætluðu til Evrópuríkja hætti við af þessum sökum. „Þetta er raunveruleg aðgangshindrun,“ sagði Þorleifur.

Ársæll benti á að kínverskum ferðamönnum hefði snarfjölgað í Bandaríkjunum eftir að þarlend stjórnvöld breyttu reglum um vegabréfsáritanir og hófu að bjóða Kínverjum áritun sem gildir til allt að tíu ára. Mikko Rautio tók undir að vegabréfareglurnar væru vandamál; Kínverjar þyrftu að skila vottorðum með umsókn sinni sem væri alltof dýrt og flókið að útvega.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda og ÍKV var fundarstjóri á málstofunni, sem var vel sótt, einkum af fólki úr ferðaþjónustunni.

Glærur Þorleifs

Glærur Ársæls

Nýjar fréttir

Innskráning