Starfsreglur Félags atvinnurekenda um samkeppni

 

  1. Markmið starfsreglna þessara er að tryggja að ákvæði samkeppnislaga séu í heiðri höfð í allri starfsemi Félags atvinnurekenda sem og að stuðla að virkri samkeppni á þeim mörkuðum sem starfsemi félagsins tekur til.

  2. Í starfsemi Félags atvinnurekenda, hvort heldur sem er á félagsfundum, stjórnarfundum, innan sérgreinahópa, fagnefnda, fulltrúaráðs eða kjararáðs eða hverjum öðrum vettvangi sem félagsmenn hittast innan vébanda félagsins, skal þess ávallt gætt að öll samskipti séu í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

  3. Starfsmenn Félags atvinnurekenda skulu ávallt gæta þess að samskipti þeirra við félagsmenn, miðlun upplýsinga þeirra á milli sem og yfirlýsingar þeirra jafnt innan félagsins sem á opinberum vettvangi séu í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

  4. Öllum þeim sem sækja fundi á vettvangi Félags atvinnurekenda eða eiga samskipti við keppinauta sína á markaði innan vébanda félagsins ber skylda til að virða ákvæði samkeppnislaga í hvívetna og gæta þess að öll samskipti rúmist innan þess ramma sem þau marka.

  5. Á vettvangi Félags atvinnurekenda skal aldrei fjalla um eða miðla upplýsingum um verð, verðþróun, viðskiptakjör eða önnur viðkvæm viðskiptaleg eða samkeppnisleg málefni með þeim hætti að dregið sé úr viðskiptalegu sjálfstæði félagsmanna eða samkeppni raskað með öðrum hætti.
     
  6. Lögfræðingur Félags atvinnurekenda eða fulltrúi hans skal vera viðstaddur alla félagsfundi, stjórnarfundi, fundi sérgreinahópa, fagnefnda, fulltrúaráðs, kjararáðs og aðra fundi á vettvangi félagsins þar sem ætla má að keppinautar á markaði hittist. Honum ber skylda til að framfylgja starfsreglum þessum og gæta þess að samskipti keppinauta á vettvangi Félags atvinnurekenda séu í samræmi við reglur þessar og ákvæði samkeppnislaga.