Talað fyrir daufum eyrum um tollalækkanir

Ýmsar nefndir og stofnanir hafa gert tillögur um tollalækkanir sem miða að því að lækka verð matarkörfunnar. Stjórnvöld hafa ekki hlustað.
Ýmsar nefndir og stofnanir hafa gert tillögur um tollalækkanir sem miða að því að lækka verð matarkörfunnar. Stjórnvöld hafa ekki hlustað.

Fjöldi stofnana og nefnda á vegum stjórnvalda hefur á undanförnum árum skilað tillögum um að lækka eða afnema tolla á innfluttar búvörur. Allar hafa þær talað fyrir daufum eyrum, enda hafa stjórnvöld kerfisbundið hunsað allar slíkar tillögur. Farið er yfir þær helstu í nýrri skýrslu FA um matartolla.

Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands 2004: Opinber stuðningur við landbúnað á Íslandi er með því mesta sem gerist í iðnvæddum ríkjum. Hátt matarverð er hluti af stuðningnum við íslenskan landbúnað. Matarreikningur landsmanna kynni að lækka um 5-10% ef innflutningshömlum væri aflétt, þótt taka þurfi þeim tölum með fyrirvara.

Skýrsla Samkeppniseftirlitsins 2005: Verð á matvörum er 42% hærra á Íslandi en í löndum Evrópusambandsins. Innflutningshömlur á búvörum virðast vera helsta ástæðan. Því er beint til stjórnvalda að dregið verði úr innflutningshömlum á búvörum og samkeppni efld á því sviði.

Skýrsla Hallgríms Snorrasonar hagstofustjóra og formanns nefndar um matvælaverð 2006: Búvörur bera svo háa tolla að komið er að mestu í veg fyrir innflutning þeirra. Tollverndin veitir ekki eingöngu vernd fyrir innlenda búvöruframleiðslu heldur veitir hún ennfremur skjól fyrir hátt verð á samkeppnis- og staðkvæmdarvörum. Innflutningsvernd verði lækkuð markvisst og afnumin og markaðskerfi landbúnaðarins gert opnara og frjálsara en nú. Hins vegar yrði stuðningur við landbúnaðinn og byggð í landinu aukinn sem svaraði til lækkunar tollverndarinnar. Með fullu afnámi tollverndar yrði verðlag á matvöru nálægt meðaltali Evrópusambandsríkja. Engin ein aðgerð yrði jafnáhrifarík til að ná niður matvælaverði hér á landi og veruleg lækkun tolla á búvörur.

Tillögur verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld 2013: Matvara er sá vöruflokkur sem nýtur mestrar samkeppnisverndar á Íslandi og eru tollar með þeim hæstu í heiminum. Innflutningsvernd er ein helsta ástæða þess að einungis þriðjungur af matarkörfu Íslendinga eru innfluttar vörur. Háir tollar veita verðskjól fyrir samkeppnisvörur og eru samkeppnishamlandi. Stór hlutur innlendrar framleiðslu minnkar líkur á innkomu erlendra dagvöruverslana á matvörumarkaðinn. Lagt til að lækka almenna tolla um helming og afnema tollvernd á svína- og alifuglakjöti að fullu.

Skýrsla Hagfræðistofnunar um mjólkuriðnaðinn 2015: Tollar á mjólkurvörur eru svo háir að þeir koma í veg fyrir innflutning, jafnvel þótt mjólkurverð lækki umtalsvert erlendis. Lagt til að tollar verði lækkaðir, svo að framleiðsla grannlandanna verði samkeppnisfær við íslenskar mjólkurafurðir hér á landi. Í framhaldi af því megi leggja af opinbert heildsöluverð á mjólkurvörum.

Skýrsla Samkeppniseftirlitsins um dagvörumarkaðinn 2015: Sambærilegar reglur gildi um samkeppni í landbúnaði og á öðrum mörkuðum. Dregið verði úr markaðstruflandi aðgangshindrunum, t.d. í formi innflutningsverndar. Þess í stað, þar sem það er nauðsynlegt, verði tekinn upp stuðningur við innlenda framleiðendur sem síður er til þess fallinn að raska samkeppni.

Skemmst er frá því að segja að stjórnvöld hafa ekkert gert með þessar tillögur um lækkun eða afnám matartolla, sem allar voru þó unnar á þeirra vegum. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá 2015 segir: „Draga má þá ályktun af yfirferð yfir samantektina að stjórnvöld hafi í mörgum tilvikum látið undir höfuð leggjast að taka tillit til leiðbeininga og tilmæla samkeppnisyfirvalda. Þau tilmæli hafa snúið að því að stjórnvöld skapi aðstæður fyrir samkeppni og nýti hvata samkeppninnar á sem flestum sviðum, þ. á m. í landbúnaði … Þá brýnir Samkeppniseftirlitið fyrir stjórnvöldum á þessu sviði að leggjast á árar með eftirlitinu og gera átak í því að bæta samkeppnisaðstæður á dagvörumarkaði. Það stoðar t.d. lítið að stjórnvöld gagnrýni hátt verðlag á matvöru ef þau eru sjálf ekki reiðubúin að grípa til aðgerða sem til þess eru fallnar að efla samkeppni.“

Skýrsla FA um matartolla

 

 

Deila
Tísta
Deila
Senda