Tekið fyrir pöntunarþjónustu Fríhafnarinnar með lagafrumvarpi

04.04.2016
Screen Shot 2015-08-12 at 10.42.32
Skjáskot úr vefverslun Fríhafnarinnar, þar sem fjölbreytt úrval er í boði af vörum sem bera ekki opinber gjöld.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp sem ætlað er að gera óheimila pöntunarþjónustu Fríhafnarinnar í Leifsstöð á internetinu, svokallaða Expressþjónustu. Félag atvinnurekenda fagnar frumvarpinu, enda hefur félagið talið þessa vefverslun Fríhafnarinnar lið í afar óeðlilegri samkeppni ríkisbúðarinnar við verslunina í landinu.

FA hefur í bréfaskiptum við fjármálaráðuneytið frá því í ágúst síðastliðnum kallað ítrekað eftir afstöðu þess til pöntunarþjónustunnar, en í henni felst að hægt er að panta vörur án opinberra gjalda á netinu og fá svo vin eða kunningja sem á leið um Leifsstöð til að sækja þær í komuverslun Fríhafnarinnar. Í síðasta svari ráðuneytisins í febrúar síðastliðnum kom fram að reynst hefði flóknara en ráð var fyrir gert að svara spurningum félagsins.

Nú hefur ráðuneytið hins vegar fundið lausn á málinu. Í frumvarpi ráðherra er lagt til að við núverandi lagaákvæði tollalaga, þar sem segir að komuverslun skuli eingöngu aðgengileg fyrir farþega og áhafnir sem komi til landsins bætist eftirfarandi málsgrein: „Óheimilt er að bjóða öðrum vörur verslunarinnar til sölu.“

Í greinargerð frumvarpsins er þetta útskýrt nánar: „Er þannig gert ráð fyrir að óheimilt verði að bjóða vörur komuverslana til sölu öðrum en þeim farþegum og áhöfnum millilandafara sem heimilt er að versla í slíkum verslunum. Þannig verður t.d. óheimilt að birta opinberlega upplýsingar um vörurnar og taka samhliða á móti pöntunum frá aðilum sem ekki eru staddir í versluninni hvort sem pantanirnar eru gerðar bréflega, í gegnum síma, á vef verslunarinnar eða með öðrum sambærilegum hætti.“

Barátta FA bar árangur
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að félagið fagni frumvarpi ráðherra. „Það er ánægjulegt að barátta FA fyrir breytingum á þessu fyrirkomulagi beri nú þennan árangur,“ segir Ólafur. „Það er vonandi að þetta sé aðeins byrjunin á að hemja útþenslustefnu ríkisfyrirtækisins Isavia, sem rekur Fríhöfnina og hefur stöðugt fært sig upp á skaftið í samkeppni við verzlunina í landinu.“

Nýjar fréttir

Innskráning