Félag atvinnurekenda

[vc_row][vc_column width=“1/1″][vc_column_text]

 GAKKTU Í FÉLAGIÐ

Frá aðalfundi FA 2017.

Félag atvinnurekenda var stofnað 21. maí 1928 af 20 stórsöluverslunum, þá undir nafninu Félag íslenskra stórkaupmanna. Félagið er því rótgróið og með langa sögu.

Félag atvinnurekenda gætir hagsmuna stórra sem smárra aðildarfyrirtækja með því að vera einarður talsmaður viðskiptafrelsis og heilbrigðrar samkeppni.

Félag atvinnurekenda er samsett af tæplega 200 félögum úr hinum ýmsu greinum atvinnulífsins. Inn- og útflutningsfyrirtæki eru áberandi í félaginu en aðildarfyrirtækin starfa í flestum geirum, til dæmis auglýsingagerð, ferðaþjónustu, samgöngum og flutningum, fjarskiptum, fjölmiðlun, fræðslu og þjálfun, fiskvinnslu, eldsneytissölu, veitinga- og ferðaþjónustu og þannig mætti áfram telja. Undanfarin ár hefur félagið orðið kostur margra áskorenda á markaði, sem efna til samkeppni þar sem áður ríkti fákeppni eða einokun.

Félag atvinnurekenda hefur haft það meginhlutverk að gæta hagsmuna félagsmanna gagnvart hinu opinbera og hafa áhrif á vöxt og viðgang þeirra greina sem félagsmenn starfa í. Félagið sinnir þessu hlutverki m.a. með því að vera öflugur talsmaður í almennri umræðu, með umsögnum um lagafrumvörp og reglugerðir og einnig á fundum með fulltrúum ráðuneyta, þingmanna og stofnana hins opinbera.

Félag atvinnurekenda hefur lagt sig fram um að veita félagsmönnum öfluga og vandaða lögfræðiþjónustu, hvort heldur er á sviði vinnuréttarmála, tollamála eða annarra þeirra mála sem koma upp í starfsemi fyrirtækja.

Félag atvinnurekenda fer einnig með gerð kjarasamninga og semur við VR, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna, Grafíu, Rafiðnaðarsamband Íslands, Lyfjafræðingafélag Íslands og Félag lykilmanna. Félagið veitir félagsmönnum ókeypis lögfræðilega þjónustu um túlkun kjarasamninga og aðstoð í ágreiningsmálum er upp kunna að koma á vinnustað.

Félag atvinnurekenda heldur uppi öflugu fræðslustarfi og stendur fyrir fjölda námskeiða og fyrirlestra á ári hverju. Félagið er aðili að Starfsmenntasjóði verslunarinnar ásamt VR og LÍV.

Félag atvinnurekenda miðlar viðskiptasamböndum og sinnir kynningarstarfi á erlendum mörkuðum. Félagið tekur þátt í erlendum vörusýningum og sér um móttöku erlendra viðskiptasendinefnda, meðal annars í gegnum viðskiptaráðin fjögur.

Félag atvinnurekenda hefur á starfstíð sinni komið að ýmsum átaksverkefnum. Nefna má byggingu Húss verslunarinnar, þriggja heildsölumiðstöðva, en þar á meðal er Sundaborgin, stofnun Verslunarbanka Íslands og Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Nær okkur í sögunni má nefna stofnun Gripið og greitt hf., Nýju skoðunarstofuna hf. (nú hluti af Frumherja hf.) og Global Refund á Íslandi ehf.

Markmið FA

  • Efla hlutverk félagsins sem hagsmunagæsluaðila
  • Vera öflugur bakhjarl og málsvari félagsmanna á opinberum vettvangi
  • Veita félagsmönnum stuðning í formi lagalegrar aðstoðar og fræðslu um vinnumarkaðsmál og rekstur fyrirtækja
  • Vera virkur þátttakandi í opinberri umræðu um málefni fyrirtækja

[/vc_column_text][/vc_column][/vc_row]