Félag atvinnurekenda hefur skrifað fjármálaráðherra og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra samhljóða erindi og óskað viðræðna við ráðuneyti þeirra um niðurfellingu tolla á blómum. Í erindi FA er bent á það óhagræði, háa verð og samkeppnishömlur sem leiði af háum blómatollum. Erindi FA fylgir stuðningsyfirlýsing 25 blómaverslana, -innflytjenda og -verkstæða víða um land, sem í sameiningu standa fyrir drjúgum meirihluta blómaverslunar og blómainnflutnings á Íslandi.
Í erindi FA til ráðherranna er bent á að á árunum 2016 og 2017 hafi verið hrint í framkvæmd áformum um að fella niður tolla á öllum vörum nema matvörum, eins og þáverandi fjármálaráðherra orðaði það 2015. Einhverra hluta vegna hafi tollar á blóm orðið eftir, þótt röksemdir um matvælaöryggi, sem notaðar hafa verið til að réttlæta áframhaldandi tolla á matvörum, eigi augljóslega ekki við um blóm.
Háir tollar margfalda verð
FA bendir á hvernig háir tollar stuðli að alltof háu verði á blómum. Blómatollar samanstanda annars vegar af 30% verðtolli og hins vegar stykkjatolli sem leggst á hverja einustu plöntu, sama hvort um er að ræða pottablóm eða afskorin blóm. Þannig leggst á flest innflutt pottablóm 30% verðtollur og 200 króna stykkjatollur. Segjum að innflutningsverð pottaplöntu sé 300 krónur. Hún ber þá 290 krónur í toll og innflutningsverðið tvöfaldast því sem næst. Á afskorin blóm leggst oftast 30% verðtollur og auk þess 95 króna stykkjatollur á hvert blóm. Tíu túlipana búnt, sem kostar 600 krónur í innkaupum, fær á sig 1.130 krónur í toll, þannig að innkaupsverðið hartnær þrefaldast. Þegar um er að ræða ódýrari blóm, til dæmis fresíur, er innkaupsverðið á hverju blómi u.þ.b. 20 krónur, en tollurinn endar í 101 krónu – enda hafa fresíur ekki fengist á Íslandi í mörg ár.
Tollkvótar eru dýrir og duga ekki
Stjórnvöld gefa tvisvar á ári út heimild til að flytja inn takmarkað magn af blómum á lægri tollum. Þá hefur stykkjatollurinn verið gefinn eftir en verðtollurinn situr eftir. Hins vegar er vaxandi eftirspurn eftir tollkvótanum – við síðustu úthlutun voru umsóknir innflytjenda þrefalt það magn sem var í boði – og það þýðir að útboðsgjaldið, sem innflytjendur greiða fyrir að fá að flytja blómin inn, fer hækkandi. Fyrir síðari helming ársins er það 40-45 krónur á hvert afskorið blóm og 119-126 krónur fyrir hvert pottablóm, samkvæmt niðurstöðum útboðs sem birtar voru á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 22. maí síðastliðinn. Það er farið að slaga vel upp í hina almennu ofurtolla.
Stykkjatollur hvetur til innflutnings á dýrari vörum
Vegna þess að stykkjatollur eða útboðsgjald – sem er ígildi tolls – leggst á hvert blóm, borgar sig ekki fyrir innflytjendur að flytja inn ódýrari vöru. Þeir neyðast til að flytja inn lúxusvöru, annars margfaldar stykkjatollurinn innkaupsverðið. Þetta stuðlar annars vegar að því að verð á blómum er hátt og hins vegar að því að tilteknar vörur fást ekki.
Ein ástæðan fyrir umframeftirspurn eftir tollkvótum er að blómamarkaðurinn hefur farið stækkandi. Fólk hefur vaxandi áhuga á að skreyta híbýli sín með blómum og neytendur sækjast eftir fjölbreytilegu úrvali. Blómaskreytingafólk með faglegan metnað þarf sem fjölbreytilegast hráefni til að vinna úr. Vöxtur ferðaþjónustunnar þýðir margfalda eftirspurn frá hótelum og veitingahúsum á við það sem gerðist fyrir fáeinum árum. Tollkvótarnir hafa hins vegar staðið óbreyttir árum saman og innlend framleiðsla fær þannig hlutfallslega minnkandi samkeppni.
Innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn
Það er samdóma álit jafnt innflytjenda sem smásala á blómum, sem Félag atvinnurekenda hefur leitað upplýsinga hjá, að innlend framleiðsla á afskornum blómum anni engan veginn eftirspurn. Fáar tegundir eru ræktaðar á Íslandi í samanburði við það mikla úrval sem er í boði á heimsmarkaði og reglulega vantar blóm af þeim tegundum, þannig að blómaverslanir fá lítið eða jafnvel ekkert af því sem þær panta frá framleiðendum. Fyrir flesta stóra „blómadaga“, til dæmis mæðradag, konudag og Valentínusardag, fá blómabúðir minna af blómum en þær vilja. Þetta væri ekki vandamál ef innflutningur væri frjáls, en ofurtollar setja strik í reikninginn. Núverandi ástand kemur því bæði niður á verði og úrvali.
Háir tollar þótt innlend framleiðsla sé engin
Eina hugsunin að baki tollum á blóm getur verið sú að vernda innlenda framleiðslu fyrir samkeppni. Háir tollar eru hins vegar á mörgum tegundum blóma, burtséð frá því hvort einhver innlend framleiðsla er á þeim. Nefna má aftur dæmið um fresíur, sem ekki eru ræktaðar á Íslandi. Nellikur eru ekki ræktaðar hér á landi en bera engu að síður 48 króna stykkjatoll á tímabilinu 1. maí til 30. nóvember. Hvaða rök liggja þar að baki? er spurt í bréfi FA.
Hvað pottaplöntur til innanhússnota varðar, er eftirspurn eftir þeim sívaxandi en innlenda framleiðslan sáralítil, líklega helst á jólastjörnum í lok árs. Fjöldi tegunda ber engu að síður sömu háu tollana eða þá stykkjagjöld upp á vel á annað hundrað króna ef flutt er inn á hinum afar takmarkaða tollkvóta. Vandséð er að nokkur vernd felist í þessu, nema þá fyrir ríkissjóð. Þó leikur varla vafi á að aukin velta með innflutt blóm, sem myndi fylgja afnámi tolla, myndi bæta ríkissjóði tekjutapið og gott betur í formi aukinna tekna af virðisaukaskatti.
Ósk um viðræður
Í niðurlagi bréfsins til ráðherranna lýsir FA sig reiðubúið til viðræðna við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og fjármálaráðuneytið um leiðir til að auka frelsi í innflutningi á blómum og fella niður tolla, jafnt versluninni í landinu sem neytendum til hagsbóta. Félagið leggur til að fulltrúar blómaverslana og innflytjenda á blómum verði jafnframt kallaðir til í þeirri vinnu.
Eftirfarandi aðilar undirrita stuðningsyfirlýsingu við erindi FA:
- Blómaval
- Garðheimar gróðurvörur
- Samasem blómaheildsala
- Blómagallerí Hagamel
- Ísblóm Háaleitisbraut
- 4 árstíðir Lágmúla
- Árbæjarblóm Hraunbæ
- Blómatorgið Hringbraut
- Blómabúðin Runni Hverafold
- Breiðholtsblóm Álfabakka
- Möggubrá Suðurlandsbraut
- Reykjavíkurblóm Borgartúni
- Auður blómabúð – blómaverkstæði Garðatorgi
- Verslunin Model Akranesi
- Blómasetrið Borgarnesi
- Sjafnarblóm Selfossi
- Hverablóm Hveragerði
- Verslunin Hlín Hvammstanga
- Býflugan og blómið Akureyri
- Blómabúðin Burkni Hafnarfirði
- Blómabúðin Dögg Hafnarfirði
- Blómabúðin 18 rauðar rósir Kópavogi
- Eydís Ósk Ásgeirsdóttir blómaskreytir
- Þórdís Z. blómaskreytir
- Dans á rósum blómaskreytingar