Fimm innflutningsfyrirtæki hafa stefnt íslenska ríkinu til endurgreiðslu á ofteknum sköttum sem greiddir hafa verið í formi tolla á landbúnaðarvörur. Dómkröfur fyrirtækjanna eru á þriðja milljarð en til viðbótar er gerð krafa um greiðslu vaxta og dráttarvaxta. „Staða kröfunnar er í dag líklega um fjórir milljarðar,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson hæstaréttarlögmaður sem rekur málið fyrir fyrirtækin og bætir við að stöðugt bætist við kröfuna þar sem íslenska ríkið haldi áfram að innheimta hin ólögmætu gjöld.
Nýverið var greint frá því að Páll Rúnar hefði endurheimt um þrjá milljarða króna í ofgreidda skatta fyrir fyrirtæki í innflutningi. Páll Rúnar segir að ólögmæti þeirrar gjaldtöku sem nú reynir á sé jafnaugljóst og í fyrri málum.
Hér á landi eru innheimtir umtalsverðir tollar af innflutningi á landbúnaðarafurðum. Þessir tollar hafa þá sérstöðu í skattheimtu ríkisins að ráðherra er heimilt, undir ákveðnum kringumstæðum, að lækka þá eða fella niður. Þessa heimild nýtir ráðherra á hverju ári og tekur sú notkun til fjölmargra flokka af grænmeti, kjöti og mjólkurvörum. Má raunar segja að á síðustu árum hafi ráðherra lækkað eða fellt niður gjöld af flestum tegundum landbúnaðarafurða. Hins vegar hafa ráðherrar líka hafnað beiðnum innflutningsfyrirtækja um að fella niður tolla og gjöld af búvörum, jafnvel þótt þær séu ekki framleiddar á Íslandi.
Skattlagning má ekki vera valkvæð
Páll segir að umrædd málsókn byggist m.a. á því að tollar þeir sem um ræðir teljast til skatta í merkingu þess hugtaks eins og það birtist m.a. í 40. og 77. gr. stjórnarskrár. Í þeim ákvæðum kemur fram að skattar skuli aðeins ráðast af lögum og að óheimilt sé að fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Afleiðingar þess eru þær að óheimilt er að hafa skatttöku valkvæða með nokkrum hætti. Það er er sem sagt óheimilt að eftirláta ráðherra ákvörðunarvald um það hvort skattar skuli lagðir á, að hvaða marki eða á hverja. Ákvæðið eins og það birtist í stjórnarskrá er fortakslaust hvað þetta varðar.
Páll segir að í því felist að ekkert svigrúm sé til þess að vikið sé frá þessu banni við tilteknar aðstæður eða atvik, hversu réttlætanleg sem slík atvik kunna að vera að mati ráðherra, löggjafans eða annarra. Páll segir að komi til þess að festar séu í lög valkvæðar heimildir til skatttöku séu lagalegar afleiðingar þess þær að gjaldtakan er ólögmæt í heild sinni.
Afnám tolla á að vera markmiðið
Félag atvinnurekenda hefur bent á mikilvægi þess að lækka gjaldtöku á matvælum og stuðla að því að kerfið taki mið af aðstæðum og sé ekki gerræðislegt í því hvernig gjöld eru lögð á. „Það kann að vera réttlætanlegt að gjaldtaka sé meiri á ákveðnum uppskerutímum hér innanlands en minni þess á milli,” segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Það á hins vegar að binda slíkt í lög með ákveðnum dagsetningum en ekki eftirláta ráðherrum þetta vald. Það er ekki bara ólöglegt að framselja vald með þessum hætti, heldur er það afskaplega óskynsamlegt. Langtímamarkmiðið á hins vegar að vera að hætta að vernda atvinnurekstur á Íslandi með tollum. Allir aðrir tollar en á búvörur hafa verið afnumdir og landbúnaður nýtur nú einn þessarar verndar fyrir samkeppni,” bætir Ólafur við.
Ólafur segir að tollar á innfluttar búvörur valdi neytendum tvíþættu tjóni. Annars vegar greiði þeir hærra verð fyrir innflutta vöru og hins vegar geri tollarnir innlendum framleiðendum kleift að selja vöru sína á hærra verði en ella væri. „Sé það yfir höfuð réttlætanlegt að vernda innlenda framleiðslu á kostnað neytenda þá verður innlenda framleiðslan að standa undir eftirspurn og vera af fullnægjandi gæðum. Hér á landi eru lagðir háir tollar á fjölmargar tegundir matvæla sem eru ekki einu sinni framleiddar á Íslandi. Spyrja verður hvað sé verið að vernda og hversu lengi megi skerða hagsmuni neytenda“ segir Ólafur.