Flestir vilja hrinda tilmælum Samkeppniseftirlitsins í framkvæmd

12.10.2016
Frambjóðendur sjö flokka sátu fyrir svörum.
Frambjóðendur sjö flokka sátu fyrir svörum.

Frambjóðendur allra flokka sem líklegir eru til að ná sæti á Alþingi, nema núverandi stjórnarflokka, telja afdráttarlaust að hrinda eigi í framkvæmd tilmælum Samkeppniseftirlitsins frá 2012, um að aflétta samkeppnishömlum í sjávarútvegi og afnema tvöfalda verðmyndun í greininni. Forsætisráðherra vill þó skoða ákveðna þætti í tilmælunum. Þetta kom fram á fundi Félags atvinnurekenda og Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) í morgun.

Aðstöðumunur og samkeppnishömlur
Samkeppniseftirlitið telur að fiskvinnslur án útgerðar og útgerðir sem ekki eiga jafnframt fiskvinnslu séu í aðstöðumun gagnvart lóðrétt samþættum útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum og í þeim aðstöðumun felist samkeppnishindranir. Bentu samkeppnisyfirvöld á fjórar leiðir til úrbóta:

  1. Setja milliverðlagningarreglur þannig að innri viðskipti fiskvinnslu og útgerðar innan sama fyrirtækis væru eins og um óskylda aðila væri að ræða
  2. Koma í veg fyrir að sjálfstæðu útgerðirnar greiði hlutfallslega hærri hafnargjöld en samþættu útgerðirnar, til dæmis með því að miða við landað magn eða opinbert viðmiðunarverð
  3. Útgerðarmenn komi ekki með beinum hætti að ákvörðun um verðlagsstofuverð
  4. Reglur um kvótaframsal verði rýmkaðar þannig að sjálfstæðar fiskvinnslur geti átt veiðiheimildir og séu þannig í betri aðstöðu að ná sér í hráefni

FA og SFÚ sendu bréf í desember síðastliðnum til Sigurðar Inga Jóhannssonar þáverandi sjávarútvegsráðherra og kölluðu eftir afstöðu hans til tilmæla Samkeppniseftirlitsins. Svar barst frá ráðuneytinu í janúar, þar sem farið var yfir það í talsvert löngu máli að í raun yrði ekkert aðhafst til að hrinda tilmælum eftirlitsstofnunarinnar í framkvæmd. Ólafur Arnarson, starfsmaður stjórnar SFÚ, gagnrýndi þessi viðbrögð harðlega í inngangi sínum í upphafi fundar.

Á meðal þeirra spurninga sem FA og SFÚ lögðu fyrir frambjóðendur á fundinum í morgun var hvort flokkur þeirra vildi beita sér fyrir því að tilmælum samkeppnisyfirvalda yrði hrint í framkvæmd.

Samkeppnisvandi myndi leysast ef markaðsverð væri skiptaverð
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist telja að ef sú breyting yrði gerð að markaðsverð yrði skiptaverð á öllum afla, myndu flest þau vandamál sem Samkeppniseftirlitið hefði bent á, leysast sjálfkrafa. Össur sagði að spurningin væri hvort menn hefðu kjark til að taka á því máli með lagasetningu. „Ég þori það,“ sagði Össur.

IMG_2823
Fundurinn var vel sóttur.

Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, sagði að það ætti að verða við tilmælum Samkeppniseftirlitsins. Það hefði raunar þegar verið gert að hluta til í lok síðasta kjörtímabils með því að auknar veiðiheimildir hefðu verið teknar út fyrir kvótakerfið. Björn Valur sagði að í tuttugu ár hefði Samkeppniseftirlitið beint svipuðum tilmælum til stjórnvalda og ekkert verið gert með þau fyrr en 2012. Þá hefðu það verið núverandi stjórnarflokkar sem hefðu lagst gegn því og síðan hefði hagsmunagæslan verið hert og öllum slíkum tilmælum verið stungið undir stól.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði að bregðast ætti við tilmælum af þessu tagi frá samkeppnisyfirvöldum. „Mér finnst alvarlegt þegar menn í stjórnkerfinu taka ekki mark á tilmælum stofnana,“ sagði Benedikt. Hann sagði að stjórnsýslan ætti að vera góð og vönduð og farið að tilmælum frá stofnunum sem falið væri tiltekið vald.

Alfa Eymarsdóttir, frambjóðandi Pírata, sagðist telja ótvírætt að fara ætti að tilmælum Samkeppniseftirlitsins og hrinda þeim í framkvæmd. Hún sagði að Samkeppniseftirlitið væri varfærið í tilmælum sínum og legði ekki til róttækar breytingar. Hún lagði áherslu á að krafan um allan afla á markað tryggði ekki eingöngu eðlilegt verð heldur líka þann aðskilnað veiða og vinnslu sem væri nauðsynlegur fyrir heilbrigt markaðsumhverfi.

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði að flokkurinn vildi að farið væri að tilmælum Samkeppniseftirlitsins, líka í öðrum atvinnugreinum eins og landbúnaði. Samkeppnisumhverfið á Íslandi ætti að vera í lagi á öllum sviðum. Hún sagði að í breyttu fyrirkomulagi gætu fiskvinnslur átt kvóta; hann þyrfti ekki að vera bundinn við fiskiskip.

Væri ekki til að auka framleiðni
Talsmenn stjórnarflokkanna lögðu áherslu á að ekki mætti gera breytingar sem drægju úr hagkvæmni eða arðsemi sjávarútvegsins. Páll Magnússon, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, benti á að Samkeppniseftirlitið hefði aldrei treyst sér til að gera þá kröfu að setja ætti allan fisk á markað. Páll sagðist telja að þegar hefði verið brugðist við tilmælunum hvað varðaði milliverðlagningarreglur. „Ég treysti mér ekki til að segja hérna að það eigi að hrinda þessum tilmælum í framkvæmd eins og þau standa í þessu áliti frá 2012,“ sagði Páll. „Að einu leyti hefur verið gengið til móts við þetta, en ég held með öðrum orðum að það sé ekki hægt að verða við þessum almennu tilmælum, sem reyndar Samkeppniseftirlitið tekur sjálft undir að séu ekki til þess fallin að auka framleiðnina í atvinnugreininni.“

Björt Ólafsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.
Björt Ólafsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

Viðmiðunarverð væri samkeppnisjafnandi
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra sagði að það væri rétt að milliverðlagningarreglur hefðu verið settar, en þær hefðu ekki verið útfærðar inni í kerfi sjávarútvegsins. „Það þyrfti að gera og í því frumvarpi sem ég var með í smíðum var verið að skoða það,“ sagði Sigurður Ingi. Hann sagði að þetta tengdist veiðigjaldaumræðunni og líka þeim hluta tilmæla Samkeppniseftirlitsins sem vörðuðu fiskverðið sem hafnargjöld væru greidd af. „Það gæti verið hægt að nýta milliverðlagningarreglur eða setja upp eitthvert viðmiðunarverð sem allir greiddu. Það væri samkeppnisjafnandi. Það væru þá allir að greiða sama verð og það væri þá eflaust eitthvað hærra en það sem lægst er verið að greiða til hafnanna. Það væri þá líka eðlilegra gagnvart sveitarfélögunum. Ég held það væri skynsamlegt að skoða það.“

Forsætisráðherra sagði jafnframt að Framsóknarmenn hefðu skoðað þá leið að setja byggðakvótann á fiskvinnslur. „Það er ekki útilokað að það sé hægt að fara þá leið,“ sagði Sigurður Ingi. Hann sagði að ræða þyrfti hvernig ráðstöfun á þeim 5,3% af kvótanum, sem ríkið hefði yfir að ráða, tryggði að vinnsla væri áfram á tilteknum stöðum.

Sigurður Ingi sagði að taka ætti tilmælin til skoðunar, en þó með þeim fyrirvara, eins og Samkeppniseftirlitið gerði sjálft, að fiskveiðistjórnunarkerfið væri mjög gott og ekki væri ætlunin að breyta því.

Verða að vera lóðrétt samþættar útgerðir
Í svari við annarri spurningu á fundinum sagði Sigurður Ingi að hann hefði viljað skoða það að tryggja að meiri afli færi um fiskmarkaði og sjálfstæðar vinnslur hefðu þannig greiðari aðgang að hráefni. Hann sagði að sú þróun að minnkandi hlutfall afla færi á fiskmarkað væri alls ekki góð fyrir sjávarútveginn í heild. Fyrirtækin í SFÚ væru mikilvægur þáttur í að gera íslenskan sjávarútveg samkeppnishæfan á alþjóðamarkaði. Hins vegar minnti hann á að Samkeppniseftirlitið segði að til þess að tryggja þá samkeppnishæfni yrðu að vera hér lóðrétt samþættar útgerðir, þar sem veiðar og vinnsla eru í sama fyrirtæki.

„Ef menn eru að tala um það í raun og veru að það eigi að brjóta það upp og hér sé allt annað umhverfi þar sem allir sitji við sama borð, og það sé aðgreint á milli, þá verða menn að segja það,“ sagði forsætisráðherra.

Hægt er að horfa á upptöku af fundinum á Facebook-síðu FA.

Umfjöllun 200 mílna um ræðu Ólafs Arnarsonar

Umfjöllun 200 mílna um afstöðu flokkanna

Umfjöllun Fréttablaðsins og Vísis

Umfjöllun Fiskifrétta

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning