Innflutningsfyrirtæki í röðum Félags atvinnurekenda leita nú til Matvælastofnunar um að stofnunin sinni því hlutverki sínu að votta innflutta búvöru og komi þannig í veg fyrir gríðarlegt tjón sem gæti orðið ef innfluttar matvörur fá ekki tollafgreiðslu. Hundruð tonna af kjöti, ostum, bökunarkartöflum og fleiri búvörum bíða nú tollafgreiðslu, sem ekki er veitt vegna verkfalls dýralækna.
Matvörufyrirtækið Innnes hefur sent Matvælastofnun erindi þar sem því er mótmælt að verkfall dýralækna þýði að Matvælastofnun geti ekki stimplað nauðsynleg skjöl vegna innflutnings matvöru. Í fyrsta lagi sé engin lagaleg krafa til þess að það þurfi að vera innlendur dýralæknir sem stimpli skjölin, en heilbrigðisvottorð með vörum frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðinu eru gefin út af þarlendum dýralæknum, í samræmi við sömu heilbrigðisreglur og gilda á Íslandi. Þá þurfi þessar vörur enga aðkomu dýralækna hvað nokkuð annað varði. Í öðru lagi er bent á að þótt svo væri sé bæði forstjóra Matvælastofnunar og yfirdýralækni, en hvorugur þeirra er í verkfalli, heimilt að stimpla skjölin.
Í erindi lögmanns Innness til Matvælastofnunar segir að synjun stofnunarinnar á að stimpla skjölin sé því ólögmæt. Vörur fyrirtækisins liggi undir skemmdum sökum þessarar ólögmætu ákvörðunar. Sú krafa er því gerð að stofnunin sinni þeirri fortakslausu og lagalegu skyldu sinni að afgreiða erindi fyrirtækisins án tafa. Verði ekki orðið við kröfunni muni það valda tuga milljóna króna tjóni, sem fyrirtækið muni sækja á hendur stofnuninni ef til kemur.
Erindi Innness er í vinnslu hjá Matvælastofnun, sem hefur óskað eftir frekari upplýsingum og fylgigögnum en ekki tekið afstöðu til kröfunnar. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segist vona að stofnunin verði við kröfu Innness og þá fleiri fyrirtækja í framhaldinu. „Lögin kveða eingöngu á um að Matvælastofnun stimpli innflutningsskjöl, ekki að dýralæknar verði að gera það. Ekki eru allir starfsmenn Matvælastofnunar í verkfalli og samkvæmt dómafordæmum geta yfirmenn stofnunarinnar gengið í störf undirmanna í því skyni að bjarga verðmætum,“ segir Ólafur.