Krafa um lóðrétt strikamerki býr til óþarfa viðskiptahindrun

08.05.2017
Lárétt eða lóðrétt? Dósin til hægri uppfyllir kröfur nýju reglugerðarinnar, en ekki flaskan til vinstri. Enn er óljóst af hverju umhverfisráðuneytið telur nauðsynlegt að gera kröfu um að strikamerki séu lóðrétt.

Ný reglugerð um drykkjarvöruumbúðir, sem taka á gildi 1. júní, getur sett innflutning á drykkjarvörum í uppnám. Í reglugerðinni, sem samin er í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, er gerð sú krafa að strikamerki á drykkjarvöruumbúðum verði lóðrétt en ekki lárétt. Þetta skapar viðskiptahindrun, sem að mati FA er algjörlega órökstudd. Félagið hefur andmælt breytingunni og slíkt hið sama hafa evrópsk samtök áfengisframleiðenda gert.

Krafa að strikamerki sé lóðrétt
Þann 1. júní næstkomandi er áætlað að ný reglugerð um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota drykkjarvöruumbúðir taki gildi. Reglugerðin er nú í kynningarferli á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við lög nr. 57/2000 um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu.

Í 9. gr. reglugerðarinnar er að finna nýtt ákvæði um gerð drykkjarvöruumbúða:

9. gr.

Gerð drykkjarvöruumbúða.

Skilagjaldsskyldar drykkjarvöruumbúðir skulu strikamerktar á merkimiða á hverri skilaskyldri umbúð fyrir sig og skal strikamerki vera hluti af ISO/IEC 15420 stöðlum. Strikamerki skal vera lóðrétt á drykkjarvöruumbúð. Strikamerki skal vera a.m.k. 80% af skilgreindri grunnstærð strikamerkis samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.

Skilagjaldsskyldar drykkjarvöruumbúðir úr postulíni eða keramík eru óheimilar.

Fari innflytjendur eða framleiðendur ekki að kröfum skv. 1. og 2. mgr. skal Umhverfisstofnun kæra brot þeirra til lögreglu skv. 10. gr. laga nr. 52/1989, ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

Kostnaður myndi lenda á neytendum
Í ákvæðinu er gerð sú krafa að strikamerki skuli vera lóðrétt á drykkjarvöruumbúð. Strikamerki á drykkjarvöruumbúðum í dag eru ýmist lóðrétt eða lárétt; t.d. eru flestar léttvínsflöskur og flöskur með sterku áfengi með láréttu strikamerki en það er mismunandi með bjórtegundir og gosflöskur. Á þeim tegundum sem eru innfluttar sér erlendi framleiðandinn um að setja strikamerkið á vöruna. Vegna smæðar markaðarins er nánast útilokað að erlendir framleiðendur myndu fást til að sérmerkja þær vörur sem flytja ætti til Íslands svo krafa reglugerðarinnar yrði uppfyllt. Þá yrðu innflytjendur að endurmerkja allar flöskur með ærnum tilkostnaði og vinnu. Ljóst er að sá kostnaður myndi að endingu lenda á neytendum með hærra vöruverði.

Gengur lengra en Evrópureglur og alþjóðlegar kröfur
Sambærilega kröfu er ekki að finna í Evróputilskipun eða Evrópureglugerð. Um séríslenska kröfu er því að ræða sem skapar viðskiptahindrun á markaði. Þess utan gengur krafan lengra en alþjóðlegar reglur GS1 um strikamerki. Í þeim er einungis gerð krafa um að strikamerki sé lóðrétt ef flaska er 5 cm eða minni í þvermál. Ljóst er að sú krafa á ekki við hefðbundnar flöskur heldur einungis svokallaðar snafsaflöskur eða „míníatúra“. Heimilt er að hafa strikamerki lárétt á stærri flöskum sem og á flöskum/umbúðum sem eru réttstrendar, þ.e. ekki kúptar. GS1 á Íslandi, sem heldur utan um upplýsingar um gerð strikamerkja, telur kröfu reglugerðarinnar óþarfa og eigi að miða við hinar alþjóðlegu viðmiðunarreglur. Verði af því að krafan verði í endanlegri útgáfu reglugerðarinnar mun einnig vera gengið lengra að þessu leyti hér á landi en í nágrannalöndunum en samkvæmt upplýsingum frá GS1 í Danmörku er ekki að finna sambærilega kröfu um lóðrétt strikamerki í reglugerðum um drykkjarumbúðir þar í landi.

Stjórnsýslan setur reglur út í loftið án þess að velta fyrir sér áhrifunum á atvinnulífið, segir framkvæmdastjóri FA.

Krafan er órökstudd
FA hefur sent umhverfis- og auðlindaráðuneytinu formlegt erindi og farið fram á að reglugerðinni verði breytt. „Að okkar mati er afar gagnrýnivert að ráðuneytið hefur ekki rökstutt með neinum hætti þörfina á þessari nýju kröfu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Krafa sem þessi er hvergi annars staðar í gildi á EES-svæðinu. Hún er gríðarlega íþyngjandi fyrir íslensk fyrirtæki, skapar viðskiptahindrun og mun að öllum líkindum hafa í för með sér hærra vöruverð fyrir neytendur. Þetta er enn eitt dæmið um að stjórnsýslan setur reglur út í loftið án þess að velta fyrir sér eitt augnablik áhrifunum á atvinnulífið.“

Samtök áfengisframleiðenda mótmæla
Reglugerðin er í umsagnarferli á EES-svæðinu til 23. maí. Evrópusamtök áfengisframleiðenda, Spirits Europe, hafa þegar mótmælt umræddu ákvæði hennar harðlega. Þau segja það skapa viðskiptahindrun, þörfin á því sé óútskýrð og önnur ríki EES séu ekki í neinum vandræðum með að leyfa hvort heldur er lárétt eða lóðrétt strikamerki á drykkjarvöruumbúðum. Í umsögn samtakanna kemur fram að stór alþjóðlegur áfengisframleiðandi meti það svo að fyrirtækið þurfi að breyta 85% af flöskumiðum sínum til að geta selt vörur sínar til Íslands, taki reglugerðin gildi.

Samtök skoskra viskíframleiðenda, Scottish Whisky Association, hafa sömuleiðis komið á framfæri andmælum vegna reglugerðarinnar.

Gildistöku frestað en óvíst hvort krafan verður felld út
Í ljósi þess að aðeins líður vika frá því að frestur aðila í EES-ríkjum til að gera athugasemdir við reglugerðina rennur út og þar til hún á að taka gildi, hefur umhverfis- og auðlindaráðuneytið ákveðið að fresta gildistökunni, samkvæmt upplýsingum sem FA hefur aflað sér. Hins vegar hefur ráðuneytið ekki gefið svör um það hvort reglugerðinni verði breytt og hin séríslenska krafa um lóðrétt strikamerki tekin út úr henni.

Viðtal við Ólaf Stephensen á Bylgjunni

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning