Lög um ráðherraábyrgð brotin með gjaldtöku fyrir tollkvóta

06.04.2021

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt auglýsingu um tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarvörum frá ríkjum Evrópusambandsins. Þar er auglýstur tollkvóti vegna tímabilsins 1. maí til 15. september nk. Í auglýsingunni kemur hins vegar ekkert fram um að ráðuneytið hafi horfið frá því að úthluta kvótanum með útboðsfyrirkomulagi því sem Landsréttur hefur dæmt ólögmætt þar sem það var í andstöðu við stjórnarskrána. FA hefur sent Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra erindi og bent ráðherra á að taka útboðsgjalds fyrir tollkvóta samkvæmt þessu ólögmæta fyrirkomulagi væri vísvitandi brot á stjórnarskránni og þar með á lögum um ráðherraábyrgð.

Einróma og afdráttarlaus niðurstaða Landsréttar í máli Ásbjörns Ólafssonar ehf. gegn íslenska ríkinu var að það fyrirkomulag, sem var viðhaft við útboð á tollkvóta fyrir búvörur á árinu 2018, væri ólögmætt og gengi gegn stjórnarskrá Íslands. Sagði orðrétt í niðurstöðu Landsréttar: Álagning gjalda þeirra sem málið varðar studdist samkvæmt þessu ekki við lögmæta skattlagningarheimild og var því ógild.“ FA bendir í bréfi sínu til ráðherra á að dómar Landsréttar séu endanlegir og bindandi fyrir málsaðila með þeirri einu undantekningu að sækja megi um áfrýjun þeirra til Hæstaréttar. Sé slík beiðni samþykkt sé málið tekið fyrir í Hæstarétti en þar til að nýr dómur er kveðinn upp haldi dómur Landsréttar gildi sínu og bindi, í þessu tilfelli, stjórnvöld.

„Athafnir ráðherra í andstöðu við dóm Landsréttar eru því ekki bara brot gegn grunnreglum réttarríkisins og reglum um þrískiptingu ríkisvalds heldur felst í þeim brot á lögum um ráðherraábyrgð sbr. t.d. a- og c-lið 8. gr. þeirra laga,“ segir í bréfi FA til ráðherra. „Umrætt fyrirkomulag, sem Landsréttur telur afdráttarlaust að brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar, var að frumkvæði ráðherra tekið upp á nýjan leik um síðustu áramót með breytingu á búvörulögum. Í ljósi niðurstöðu Landsréttar er að mati FA óhugsandi að gjaldtaka vegna tollkvótanna geti farið fram að óbreyttu enda liggur fyrir fortakslaus dómur áfrýjunardómstóls um ólögmæti hennar. FA telur að ráðherra verði að hafa atbeina að því að Alþingi breyti búvörulögum á nýjan leik eða úthluti tollkvótunum án gjalda. Ella er um að ræða skýrt ásetningsbrot ráðherra gegn stjórnarskrá lýðveldisins.“

Úthlutun kvóta liggi fyrir með þriggja vikna fyrirvara
Í erindinu til ráðherra er einnig bent á að úthlutun tollkvóta fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins hafi ekki legið fyrir fyrr en hartnær mánuði eftir að tímabilið hófst. Í ljósi þess að innflytjendur panti ekki inn vörur nema hafa fengið kvótaúthlutun og 3-6 vikur geti liðið frá pöntun þar til varan sé komin á lager, hafi stór hluti tímabilsins farið forgörðum. FA bendir á að miðað við sama hraða á meðferð þessarar annarrar kvótaúthlutunar ársins, verði kvóta tæplega úthlutað fyrr en kvótatímabilið sé hafið, eða þá fáeinum dögum áður en nýir tollkvótar taka gildi 1. maí. FA segir að þessi vinnubrögð fari í bága við tvíhliða samning Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með búvörur, sem undirritaður var í september 2015, en í honum segir: „Samningsaðilarnir eru sammála því að tryggja að ávinningnum, sem þeir veita hvor öðrum, verði ekki stefnt í hættu með öðrum takmarkandi innflutningsráðstöfunum.“ Vinnubrögðin við úthlutun tollkvóta séu augljósar takmarkanir í vegi innflutnings búvöru og brjóta því gegn samningnum.

„FA fer fram á að ráðuneytið endurskoði verklag sitt við auglýsingu og úthlutun tollkvóta þannig að ferlið fari fram með mun betri fyrirvara og úthlutun kvóta liggi fyrir ekki síðar en þremur vikum fyrir upphaf úthlutunartímabils. Þannig má stuðla að því að starfsumhverfi innflutnings búvöru sé stöðugra og fyrirsjáanlegra,“ segir í erindi félagsins til ráðherra.

Erindi FA til ráðherra

 

Nýjar fréttir

Innskráning