Neytendur njóta góðs af tollasamningi og breyttri útboðsaðferð tollkvóta

04.12.2020

Neytendur hafa notið góðs af tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins og þeirri breyttu aðferð við útboð á tollkvótum, sem tekin var upp á árinu. Það kemur skýrt fram í  nýrri skýrslu verðlagseftirlits Alþýðusambandsins sem gerð var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (ANR). Verð á innfluttum kjötvörum og ostum, þar sem tollkvótar hafa stækkað í samræmi við tollasamninginn, hækkaði mun minna en við mátti búast vegna veikingar krónunnar á tímabilinu desember 2019 til september 2020 og lækkaði í sumum tilvikum. Úrval af búvörum, bæði innfluttum og innlendum, hefur aukist og sýnir það vel kosti þess að innlendur landbúnaður hafi samkeppni frá innflutningi, að mati Félags atvinnurekenda.

Í skýrslu ASÍ er rifjað upp að ANR hafi samið við verðlagseftirlitið í lok árs 2019 um gerð verðkannana á innlendum og innfluttum búvörum. „Markmiðið með samningnum var að safna gögnum og fylgja þannig eftir þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um tollkvóta í desember 2019. Væntingar standa til að breytingarnar muni skila sér í lægri kostnaði fyrir innflytjendur og lægra verði til neytenda,“ segir í skýrslunni.

Aukið úrval af innfluttri og innlendri vöru
Í niðurstöðum ASÍ kemur fram að framboð eða úrval á þeim landbúnaðarvörum sem könnunin náði til hafi aukist töluvert á tímabilinu. Langmest hafi framboðið aukist af innfluttu svína- og alifuglakjöti, en framboð á innfluttu nautakjöti og ostum hafi einnig aukist talsvert. Einnig megi greina mikla framboðsaukningu á innlendum búvörum, mest á nauta- og svínakjöti en einnig fuglakjöti og unnum kjötvörum. Úrval af ostum hafi hins vegar lítið aukist.

Minni verðhækkanir en gengisveiking gaf tilefni til
Verð á innfluttum búvörum hækkaði í sumum tilvikum meira en verð innlendra búvara, að því er segir í niðurstöðum skýrslunnar. „Í sumum flokkum landbúnaðarvara hækkaði verð á innfluttum landbúnaðarvörum þó ekki mikið umfram verð á innlendum landbúnaðarvörum og tiltölulega lítið sé horft til veikingar krónunnar á tímabilinu sem verðtakan fór fram. Þá mátti sjá verðlækkun í einum flokki innfluttra landbúnaðarvara í könnuninni,“ segir í niðurstöðunum. Í skýrslunni kemur fram að krónan hafi veikst um 20% gagnvart evrunni á tímabilinu desember til september, en langmest af innfluttri búvöru kemur frá ríkjum Evrópusambandsins. „Veiking krónu hefur tilhneigingu til að fara nokkuð hratt út í verðlag á innfluttum vörum en aðrir áhrifaþættir geta unnið upp á móti,“ segir ASÍ.

Breytingar á tollafyrirkomulagi spila inn í hækkun grænmetisverðs
Að mati FA sést þetta glöggt í þeim verðbreytingum, sem sjá má í meðfylgjandi töflu. Verðhækkanir á kjötvörum og ostum eru minni en gengisveikingin gefur tilefni til og í tilviki alifuglakjöts lækkar verð innlendrar vöru. Tollkvótar á þesum vörum hafa farið stækkandi vegna tollasamningsins við Evrópusambandið. Lægra útboðsgjald vegna breyttrar útboðsaðferðar hefur einnig haft áhrif á verð sumra þessara vara, einkum nautakjöts og unninnar kjötvöru.

Innflutt grænmeti hækkar talsvert meira en kjöt- og mjólkurvörur. Það skýrist annars vegar af gengisveikingu og hins vegar á því að innkaupsverð á grænmeti hefur hækkað vegna vandkvæða við tínslu, pökkun og flutninga vegna kórónuveirufaraldursins. Ekki hafa heldur orðið hagstæðar tollabreytingar á grænmeti. Þvert á móti voru með breytingu á búvörulögum um áramót afnumdir svokallaðir skortkvótar; heimildir til að flytja inn búvörur á lægri eða engum tolli ef innlenda framleiðslu vantar á markað. Það hefur orðið til þess að komið hafa tímabil sem innflutt vara er flutt inn á fullum tolli þótt lítið eða ekkert sé til af innlendri vöru og hefur það haft áhrif til hækkunar á grænmetisverði, í þessu tilviki aðallega á gulrætur.

Niðurstöðurnar koma ekki á óvart
„Niðurstöður skýrslunnar koma ekki á óvart. Neytendur njóta góðs af tollasamningnum við Evrópusambandið, sem hefur stuðlað að því að halda niðri verði á innfluttri matvöru þrátt fyrir mikla veikingu krónunnar,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Breytt aðferð við útboð á tollkvótum gagnast neytendum jafnframt í flestum tilvikum. Þá er fagnaðarefni að sjá að aukið úrval af innfluttum búvörum hvetur innlenda framleiðendur líka til að gera betur. Í ljósi þessara niðurstaðna verður að skoða frumvarp landbúnaðarráðherra um að breyta útboðum á tollkvótum til fyrra horfs og kröfur hagsmunaaðila í landbúnaðinum um að segja upp tollasamningnum við ESB.“

Nýjar fréttir

19. nóvember 2024

Innskráning