Ráðherra aðhefst ekkert í samkeppnismálum í sjávarútvegi

02.02.2016

Fiskvinnsla kroppuðAtvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur svarað bréfi FA og SFÚ (Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda) frá 2. desember síðastliðnum. Þar var sjávarútvegsráðherra hvattur til að grípa til aðgerða til að draga úr samkeppnishindrunum í sjávarútvegi í samræmi við álit Samkeppniseftirlitsins frá því árið 2012.

Í bréfi FA og SFÚ voru útlistaðar fjórar tillögur Samkeppniseftirlitsins um hvernig mætti efla samkeppni í sjávarútveginum og draga úr samkeppnishömlum sem hlytust af lóðréttri samþættingu útgerðar og fiskvinnslu. Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að vegna hennar hallaði á samkeppnisstöðu fiskvinnslufyrirtækja án útgerðar og útgerðarfyrirtækja án fiskvinnslu. Í stuttu máli er afstaða ráðuneytisins sú að aðhafast ekkert í neinu af þessum fjórum málum.

Samkeppniseftirlitið lagði í fyrsta lagi til að beitt yrði milliverðlagningarreglum í innri viðskiptum samþættra útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja til að taka á því að vinnsluhlutinn fær iðulega aflann á mun lægra verði en gildir á fiskmörkuðum. Ráðuneytið vísar til skattareglna sem hafa enga beina þýðingu fyrir þann vanda sem hér er um að ræða og vísar að öðru leyti á fjármálaráðuneytið.

Í áliti Samkeppniseftirlitsins var í öðru lagi lagt til að álagningu hafnargjalda yrði breytt. Í þessu efni vísar atvinnuvegaráðuneytið á innanríkisráðuneytið.

Í þriðja lagi lagði Samkeppniseftirlitið til að fyrirkomulagi Verðlagsstofu skiptaverðs yrði breytt þannig að útgerðarmenn kæmu ekki beint að ákvörðunum hennar um verð. Um þetta segir ráðuneytið að á þessari stundu séu „engin áform uppi um breytingar á lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs.“

Fjórði liðurinn í tillögum Samkeppniseftirlitsins var að auka heimildir til kvótaframsals og heimila aðilum sem ekki ættu fiskiskip að kaupa, leigja og selja aflaheimildir. Ráðuneytið vísar til orða sjávarútvegsráðherra í fyrirspurnatíma á Alþingi, þar sem hann sagði að tillagan hefði oft komið til umræðu en engin sérstök áform væru um að taka þessar hugmyndir til skoðunar að nýju. Ráðuneytið segist efast um að sú takmörkun að aflamark sé bundið við fiskiskip  eingöngu hafi í raun mikil áhrif á möguleika fiskvinnslu til að tryggja sér hráefni.

Svarið veldur vonbrigðum
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að svarið valdi vonbrigðum. „Það liggur fyrir og var rækilega staðfest í áliti Samkeppniseftirlitsins að ekki sitja öll sjávarútvegsfyrirtæki við sama borð. Þrátt fyrir yfirlýsingar núverandi ráðherra, meðal annars á fundi FA og SFÚ fyrir kosningarnar 2013, um að hann vilji beita sér fyrir aukinni samkeppni og gegnsæi á markaðnum, kýs hann að aðhafast ekkert.“

„Við fögnum því út af fyrir sig að loksins hefur komið svar úr ráðuneytinu, en SFÚ hefur ýtt á eftir þessu máli með bréfa- og greinaskrifum í þrjú ár án þess að fá nokkur viðbrögð frá sjávarútvegsráðherra. Svörin eru hins vegar með miklum ólíkindum og varla boðleg. Við munum leita samstarfs við önnur samtök sem eiga mikið undir heilbrigðri samkeppni og eðlilegri verðmyndun í sjávarútveginum og svara þessum sjónarmiðum ráðuneytisins með ýtarlegri hætti,“ segir Jón Steinn Elíasson, formaður SFÚ.

Bréf FA og SFÚ til sjávarútvegsráðherra

Svarbréf atvinnuvegaráðuneytisins

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning