Skortur á selleríi vegna hárra tolla

07.09.2021
Hér er til sellerírót – en ekkert sellerí.

Sellerí er víðast ófáanlegt í matvöruverslunum þessa dagana. Innlend uppskera hefur gengið illa og varan skilað sér stopult til verslana og dreifingaraðila, en háir tollar hafa hins vegar verið lagðir á sellerí frá 15. ágúst.

Eingöngu einn framleiðandi ræktar sellerí á Íslandi og hefur hann aðeins getað mætt broti af eftirspurn verslunarinnar eftir vörunni undanfarnar vikur. Ekki er lengur fyrir hendi sá möguleiki að atvinnuvegaráðuneytið lækki tolla ef skortur er á innlendri vöru, eins og tíðkaðist þar til á síðasta ári. Árið 2019 flutti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frumvarp sem fól í sér ýmar breytingar á tollaumhverfi innflutnings búvara. Felld voru niður ákvæði sem heimiluðu ráðherra að gefa út svokallaðan skortkvóta ef innlenda framleiðslu vantar á markaðinn en þess í stað skilgreind fastákveðin tímabil, sem flytja má inn viðkomandi vöru, aðallega grænmeti, á lægri eða engum tolli. FA gagnrýndi þau ákvæði frumvarpsins og lagði til verulega rýmkun á tímabilunum. Í meðförum atvinnuveganefndar Alþingis þrengdust þau hins vegar. FA varaði þá þegar við afleiðingunum og benti á að reglulega myndi koma upp skortur á tilteknum grænmetistegundum. Niðurstaðan yrði annaðhvort að þær yrðu ófáanlegar eða innflutningur yrði á miklu hærra verði en þyrfti að vera, þótt engin innlend vara væri til. Það hefur síðan komið á daginn varðandi t.d. kartöflur og gulrætur og nú sellerí.

Tollar tvöfalda verðið
Á innflutt sellerí leggst nú 30% verðtollur auk 276 króna magntolls á kíló. Innflytjendur hafa ekki treyst sér að flytja sellerí inn á slíkum tollum, enda myndi það tvöfalda verðið og gott betur miðað við það sem neytendur eru vanir.

„Að okkar mati þarf að endurskoða frá grunni þessi tímabil, sem tollar leggjast á innflutt grænmeti,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA.  „Í þessu tilviki þarf innlenda framleiðslan ekki einu sinni á tollverndinni að halda, af því að hún er rifin út um leið og eitthvað er til. Neytendur velja fremur innlenda grænmetið en innflutt. Það er algjörlega fráleitt að ef það innlenda er ekki til sé versluninni og neytendum refsað með þessum gríðarlegu tollum á innflutta vöru.“

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning