Sykurskattur ekki forgangsmál – VG leggur ekki til nýja skatta

08.09.2021
Katrin Jakobsdóttir var gestur í Kaffikrók FA.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, segir að flokkur hennar leggi ekki til að teknir verði upp nýir skattar þótt hann vilji breytingar á skattkerfinu. Sykurskattur, sem hefur verið talsvert til umræðu á kjörtímabilinu, sé ekki forgangsmál hjá VG. Formaður VG vill ekki áfengi í búðir, en segir að ræða þurfi þau áhrif sem tæknibreytingar hafi haft á áfengismarkaðinn. Þetta var á meðal þess sem fram kom í samtali Katrínar við Ólaf Stephensen framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda í Kaffikrók FA í morgun. Hægt er að horfa á samtalið í spilaranum hér að neðan.

Útfærslan skiptir máli
Ólafur ræddi tillögur um sykurskatt, sem settar voru fram í skýrslu starfshóps Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og FA hefur gagnrýnt harðlega. Katrín tók fram að ríkisstjórnin sem slík hefði ekki lagt fram beinar tillögur um sykurskatt. „Í þessu máli finnst mér skipta máli að meta útfærslu og hvort hún sé skynsamleg. Við höfum alls ekki verið neikvæð gagnvart þessum hugmyndum en útfærslan skiptir miklu máli. Við erum ekki með þetta sem forgangsmál,“ sagði Katrín.

„Forgangsmál okkar í skattamálum er að við boðum ekki nýja skatta. Við boðum hins vegar að við viljum taka til endurskoðunar fjármagnstekjuskattinn og þá hugsanlega þrepaskiptingu hans. Nú eða þá að horfa til Norðurlandanna, þar sem er gerður ákveðinn greinarmunur á sparnaði og hagnaði. Þetta er það sem við setjum sem okkar forgangsmál í skattamálum á komandi kjörtímabili. Svo eru grænu skattarnir miklu stærri hluti af okkar stefnu en sykurskatturinn. Ég veit alveg að einhverjir af ykkar félagsmönnum hafa andæft þeim, en þar skiptir máli að vera í senn með ívilnanir sem hvetja til þess að gera það sem við þurfum að gera – en líka að það sé ekki ókeypis að halda áfram að losa gróðurhúsalofttegundir. Þetta er stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir, það eru loftslagsmálin.“

Ekki útilokað að lengja í lækkun tryggingagjalds
Katrín var spurð út í fyrirtækjaskatta og rifjaði hún upp að VG hefði haft á sinni stefnu á síðasta kjörtímabili að lækka tryggingagjald og það hefði gengið eftir. „Hins vegar höfum við ekki lofað því núna því að við erum að horfa til þess að það þarf að nást ákveðið jafnvægi á milli þess hverju tryggingagjaldið á að standa undir og hvað er innheimt af tryggingagjaldi. Þannig að við höfum ekki lofað neinum lækkunum á því og höfum heldur ekki boðað neinar hækkanir,“ sagði hún. Horfa þyrfti til þess að tryggingagjaldið stæði t.d. undir lengingu fæðingarorlofs.

Í fyrra var lögfest tímabundin lækkun tryggingagjaldsins, úr 6,35% í 6,10% af launagreiðslum, en sú lækkun á að falla úr gildi um áramót. Ólafur spurði hvort til greina kæmi að lengja í þeirri lækkun eða gera hana varanlega. „Ég útiloka ekki að það sé hægt að lengja í henni. Mér finnst að við þurfum að láta það dálítið ráðast af þróun efnahagsmála. Við höfum brennt okkur á því í þessum faraldri að þar hefur ekki allt verið fyrirsjáanlegt. Þar þurfum við að meta stöðuna og hvernig hagkerfið kemur út úr þessu,“ sagði forsætisráðherra.

Styður ríkiseinkasölu en vill ræða tæknibreytingar á áfengismarkaði
Katrín var spurð hvort ekki væri ástæða til að fara að endurskoða áfengisstefnu hins opinbera. Ólafur fór yfir að í orði kveðnu hefði ÁTVR einkarétt á smásölu áfengis en margar leiðir væru orðnar framhjá þeim einkarétti; netverslanir, sala beint frá framleiðendum og í gegnum smakkklúbba. Þá væru áfengisauglýsingar bannaðar í orði kveðnu en engu að síður mjög aðgengilegar í gegnum alþjóðlega fjölmiðla og samfélagsmiðla. „Þarf ekki að hætta þessum tvískinnungi og ákveða bara að jú, það megi fleiri en ríkið selja áfengi og að það megi auglýsa áfengi – þannig að það sé þá hægt að setja einhverjar reglur um það? Í dag eru engar reglur af því að lögin gera ráð fyrir að þetta sé allt saman bannað,“ sagði Ólafur.

Katrín sagði að VG styddi ríkiseinkasölu á áfengi vegna lýðheilsusjónarmiða. „Hins vegar er það alveg rétt sem þú segir að tæknibreytingar, sem hafa haft gríðarleg áhrif á verslun, gera að verkum að við þurfum að taka þessi mál til umræðu og hvaða stefnu við viljum taka.“ Katrín sagðist vilja fara varlega í þessum efnum og myndi „aldrei nokkurn tímann“ styðja að áfengi yrði selt í matvöruverslunum, enda myndi það vafalaust auka neyslu þess. „Hins vegar þurfum við að sjálfsögðu að taka til umræðu þessar tæknibreytingar sem eru að einhverju leyti að breyta neyslunni. Þó ég hafi sjálf ekki gert þetta, að kaupa áfengi á netinu eða annars staðar frá, þá veit ég auðvitað alveg hvað er í gangi.“

Katrín og Ólafur ræddu meðal annars um kröfur VG um aukið regluverk fyrirtækja, tillögur flokksins um stuðning við nýsköpun, landbúnaðarmál og loftslagsstefnu, vinnumarkaðsmál og umfang ríkisrekstrar. Hægt er að horfa á samtalið með því að smella á spilarann hér að ofan.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning