Vanhugsaður sykurskattur

26.06.2019
Ekki er ljóst hvort beita á sykurskatti til að hækka sykraðar mjólkurvörur í verði um 20%.

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptamogganum 26. júní 2019.

Ríkisstjórnin hyggst, að tillögu heilbrigðisráðherra, stofna starfshóp sem á að ákveða hvernig hrint verði í framkvæmd tillögum Landlæknisembættisins um að draga úr sykurneyzlu Íslendinga. Veigamesta tillagan er að færa jafnt sykraða og sykurlausa gos- og svaladrykki, ásamt sælgæti, í hærra þrep virðisaukaskatts og bæta vörugjöldum þar ofan á þannig að verðið hækki um 20%. Á móti vill embættið lækka verð á grænmeti og ávöxtum með lækkun eða afnámi á virðisaukaskatti.

Markmiðið er göfugt; að draga úr offitu, sykursýki og tannskemmdum. Við tillögunar er hins vegar margt að athuga.

Einfalda fyrst, flækja svo aftur
Tillögurnar myndu flækja kerfi neyzluskatta á Íslandi stórlega, kæmust þær í framkvæmd. Öll matvara og áfengi hefur verið færð í sama virðisaukaskattþrep. Fyrir nokkrum árum voru vörugjöldin, ranglátur skattur sem skekkti verðmyndun og samkeppni, aflögð. Tillögur Landlæknisembættisins ganga út á að taka upp þrjú virðisaukaskattþrep matvöru, auk vörugjalda. Slík breyting kann ekki góðri lukku að stýra og myndi stórauka kostnað og óhagræði verzlunarinnar, auk hættu á skattundanskotum. Affarasælast væri að skattleggja allar vörur í einu, tiltölulega lágu virðisaukaskattþrepi með engum undanþágum.

Vitlausar tölur endurnýttar
Tillögurnar virðast byggðar á gömlum og röngum gögnum. Landlæknisembættið vísar t.d. til landskönnunar á neyzlu frá 2010-2011 og ályktar út frá henni að 34% viðbætts sykurs komi úr sykruðum gos- og svaladrykkjum. Embættið tekur fram að ekki séu til nýrri tölur um sykurneyzlu en frá 2012. Félag atvinnurekenda benti heilbrigðisráðherra á það fyrir ári að þessar tölur væru bæði gamlar og rangar. Önnur gögn bentu til að innan við fimmtungur sykurneyzlu Íslendinga komi úr gosdrykkjum. Jafnframt var bent á að Landlæknisembættið hefði ekki sinnt óskum framleiðenda og innflytjenda gosdrykkja um samtal um það hvernig megi tryggja að gögn, sem embættið byggir tillögur sínar á, séu rétt. Engu að síður tyggur ráðherrann upp hina röngu tölu í grein sinni í Morgunblaðinu á mánudaginn.

Smelltu á myndina til að stækka hana.

Neyzlan breytist án skatta
Sölutölur benda til þess að sykurneyzla breytist hratt á Íslandi. Samkvæmt gögnum úr kassakerfum 95% verzlana á Íslandi hefur markaðshlutdeild sykraðra gosdrykkja minnkað úr 48% í 42% á þremur árum, þ.e. frá maí 2016 til maí 2019. Á sama tíma jókst markaðshlutdeild kolsýrðs vatns úr 25% í 30%. Sjö til átta ára gömul gögn sem Landlæknir vísar í ná ekki utan um þessa þróun sem er mun hraðari en í mörgum löndum sem hafa tekið upp sykurskatt. Neytendur verða æ meðvitaðri um hollustu og framleiðendur hafa breytt vöruframboði sínu til að bregðast við aukinni eftirspurn eftir ósykruðum vörum.

Skatta fyrst, spyrja svo
Landlæknisembættið viðurkennir að tölur um sykurneyzlu séu gamlar og fé skorti til að gera haldbærar kannanir á mataræði. Engu að síður vill embættið fyrst setja á skattinn og fylgjast síðan með og meta „hvaða áhrif skattlagningin hefur á neysluvenjur“. En hvernig á að greina í sundur sjálfsprottna breytingu á neyzluvenjum, sem myndin með þessari grein sýnir, og „áhrif skattlagningar“? Hvernig væri að sannreyna hvort sykurneyzla fer vaxandi eða þverrandi áður en teknar eru afdrifaríkar ákvarðanir um að kollsteypa kerfi neyzluskatta?

Atvinnugreinum mismunað
Óljóst er hver skilgreiningin er á vörum sem eiga að falla undir sykurskattinn. Verða alls konar dísætar mjólkurvörur undanþegnar? Kex og bakarísbrauð? Á kolsýrt vatn með náttúrulegum ávaxtasafa að falla undir skattinn? Mikil hætta virðist á að vörum og atvinnugreinum verði gróflega mismunað með þeim skattlagningaráformum sem eru uppi.

Sykurskatturinn er vanhugsuð tillaga. Aðgerðaáætlun Landlæknis inniheldur ágætar hugmyndir um miðlun upplýsinga um hættuna af óhóflegri sykurneyzlu. Á grundvellri slíkra upplýsinga og þekkingar eiga neytendur að fá að taka sínar ákvarðanir, án þess að ríkið reyni að stýra neyzlunni með sköttum.

Nýjar fréttir

Innskráning