Starfshópur utanríkisráðherra um aðgerðir gegn gullhúðun EES-reglna hyggst leggja til að breytingar verði gerðar á verklagi við vinnslu stjórnarfrumvarpa til innleiðingar á Evrópureglum, þannig að bæði hagsmunaaðilar og alþingismenn séu rækilega upplýstir um það strax á fyrstu stigum lagasetningar ef stjórnvöld bæta innlendum reglum við EES-löggjöfina. Þetta kom fram í máli Margrétar Einarsdóttur lagaprófessors, sem á sæti í hópnum, á fundi Íslensk-evrópska verslunarráðsins og Félags atvinnurekenda í morgun. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum í spilaranum hér að neðan.
Með gullhúðun er átt við að stjórnvöld noti tækifærið og bæti við innlendum reglum þegar reglur Evrópska efnahagssvæðisins eru innleiddar í landsrétt. Margrét sagði í inngangserindi sínu á fundinum að það hefði komið henni á óvart hversu umfangsmikil gullhúðunin væri, en hún skoðaði sérstaklega málefnasvið umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins á tilteknu árabili og niðurstaðan var að í 40% frumvarpa, sem áttu að innleiða EES-reglur, var innlendum reglum bætt ofan á Evrópureglurnar. Ekkert benti til að drægi úr þessari tilhneigingu.
Margrét sagði að það hefði einnig vakið athygli hennar að oft hefði ekki verið hægt að sjá auðveldlega í greinargerðum innleiðingarfrumvarpa að verið væri að gullhúða reglurnar. Það væri hins vegar skylda, samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis og reglum ríkisstjórnarinnar um undirbúning stjórnarfrumvarpa. Rökstuðningur fyrir því að reglum væri bætt við EES-reglurnar væri líka oft lítill sem enginn. „Þetta ástand hefur í för með sér að jafnan er þörf á umfangsmikilli og tímafrekri greiningarvinnu við meðferð innleiðingarfrumvarpa til að átta sig á hvort verið sé að gera ríkari kröfur en nauðsynlegt er,“ sagði Margrét. Hún sagði að þetta væri vinna, sem yfirleitt væri unnin af hagsmunaaðilum og á kostnað þeirra.
Tillögur um breytt verklag
Starfshópur utanríkisráðherra, sem Margrét á sæti í, mun gera tillögu um breytt verklag í þessum efnum. „Það skiptir höfuðmáli að alþingismenn og hagsmunaaðilar séu upplýstir um ef ætlunin er að gera meiri kröfur í innleiðingarlöggjöfinni en leiðir af lágmarkskröfum viðkomandi EES-löggjafar. Jafnframt er æskilegt að vekja athygli hagsmunaaðila á því eins fljótt og hægt er í undirbúningsvinnu frumvarpsgerðar,“ sagði hún. Í tillögum starfshópsins verður lagt til að þessu verði bætt við staðlað eyðublað, sem fylgja á áformum um lagasetningu eða frumvarpsgerð.
Jafnframt hyggst starfshópur ráðherra gera tillögu um að í greinargerð allra innleiðingarfrumvarpa verði sérstakur kafli þar sem greint verði frá því hvort í frumvarpinu séu gerðar meiri kröfur en nauðsynlegt er, og ef um slíkt sé að ræða sé rökstutt hvers vegna hafi verið ákveðið að fara þá leið. „Þetta þýðir að alþingismenn og hagsmunaaðilar ættu með tiltölulega lítilli vinnu og fyrirhöfn að geta nálgast þessar upplýsingar og treyst því að ef verið er að beita gullhúðun, sé greint frá því með skýrum og skilmerkilegum hætti og það rökstutt,“ sagði Margrét. Þennan kafla yrði að finna í sniðmáti stjórnarfrumvarpa og hann yrði alltaf á sama stað í greinargerðinni, þannig að ekki þyrfti að lúslesa frumvarpið til að átta sig á hvort um gullhúðun væri að ræða.
Loks mun starfshópurinn leggja til að hvert og eitt ráðuneyti skoði hvort gullhúðun hafi verið beitt við innleiðingu löggjafar á þess málefnasviði í gildandi löggjöf og taki upplýsta afstöðu til þess hvort ástæða sé til að „afhúða“ löggjöfina, þ.e. fella úr gildi innlendar viðbætur við Evrópulöggjöfina. „Í sumum tilvikum verður niðurstaða ráðuneytanna örugglega sú að gullhúðun hafi átt rétt á sér og ekki sé ástæða til breytinga en í öðrum tilvikum mun slík skoðun væntanlega leiða til breytinga. Hér geta hagsmunaaðilar lagt sitt lóð á vogarskálarnar og bent bæði ráðuneytum og einstaka þingmönnum á óæskileg dæmi um gullhúðun,“ sagði Margrét.
Hún sagði að starfshópurinn myndi gera fleiri tillögur, en þær eiga að birtast á allra næstu dögum.
Í pallborðsumræðum að erindi Margrétar loknu sagði hún að til greina kæmi að ganga enn lengra og gera það einfaldlega að meginreglu að ekki ætti að gullhúða Evrópureglur, þ.e. ekki gerðar ríkari kröfur en lágmarkskröfur EES-löggjafarinnar, nema sérstakar aðstæður krefðust þess. Slíkt hefði t.d. verið gert í Bretlandi áður en það yfirgaf Evrópusambandið. Ákvörðun um slíkt væri hins vegar pólitísk.
Stjórnmálamenn verða að axla ábyrgðina
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, tók þátt í pallborðsumræðunum. Ólafur Stephensen fundarstjóri spurði hana hvort ekki vantaði pólitíska forystu til að kæfa tilraunir til gullhúðunar EES-reglna; að ráðherrar skýrðu t.d. fyrir undirmönnum sínum í ráðuneytum og undirstofnunum þeirra að slíkt væri einfaldlega ekki í boði.
Kristrún sagði að það gæti stundum verið ástæða til að ganga lengra en EES-reglur kvæðu á um, en það væri alvarlegt og vont þegar það væri gert undir fölsku flaggi, eins og Margrét hefði bent á. Staðreyndin væri sú að innleiðingarfrumvörp færu hraðar í gegnum þingið en önnur mál, enda væri ríkur vilji hjá þingmönnum að fylgja EES-samningnum. „Þess vegna held ég að það sé einmitt alvarlegt ef það er ekki tekið fram ef um er að ræða meira íþyngjandi kröfur eða gengið lengra, því að vaktin hjá þingmönnum er bara önnur þegar kemur að þessum málum,“ sagði hún.
Kristrún sagði að embættismenn réðu miklu, sem hefði bæði kosti og galla, en stjórnmálamenn yrðu að sjálfsögðu að axla ábyrgð á löggjöfinni á endanum. „Það er ráðherra sem kvittar undir það frumvarp sem fer út. Það er eflaust eitthvað til í því sem Margrét segir að stundum er verið að smeygja með einhverjum pólitískum ákvörðunum sem fólk ætti bara að „owna“ út á við. Ef ég tala fyrir sjálfa mig og minn flokk, eftir að ég tók við forystu, þá er bara lykilatriði að fólk viti hvar maður stendur og komi hreint fram.“
Kemur verr niður á samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja
Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður og formaður ÍEV, benti í umræðunum á að þótt gullhúðun EES-reglna væri ekki bundin við Ísland, gæti hún bitnað verr á samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja vegna smæðarinnar. Verið væri að færa stærðarmörk íþyngjandi krafna neðar hér á landi, sem gerði að verkum að íslensk fyrirtæki stæðu höllum fæti í samkeppni við önnur evrópsk fyrirtæki af sömu stærðargráðu. „Ég skil embættismanninn sem er að skrifa upp reglurnar og áttar sig á að það sé rosalega kjánalegt að bara tvö fyrirtæki á Íslandi falli undir stærðarkröfur um einhver endurskoðunarskilyrði eða eitthvað slíkt og ætlar að vera rosalega flottur á því og lækka mörkin þannig að þetta sé nú eitthvað ofan á brauð. Staðreyndin er sú að þá eru þessi fyrirtæki farin að sæta öðrum og lakari rétti en þau sem þau keppa við á alþjóðlegum vettvangi,“ sagði Páll.
Hann sagði að ÍEV vildi standa vörð um frjáls viðskipti á EES og hefði áhyggjur af að Evrópusambandið væri gert að blóraböggli fyrir innlendar reglur, sem oft ættu engan rétt á sér. „Þessu er oft klínt á EES-samninginn og er þá til þess fallið að kynda undir neikvæðri umræðu um samninginn, sem hefur skilað okkur gríðarlega miklum ábata á undanförnum árum,“ sagði Páll.
Undir þetta tók Kristrún og benti á að EES-reglurnar væru til þess að samræma markaðinn og gera íslenskum fyrirtækjum auðveldara að vera á alþjóðlegum markaði. Framkvæmdastjórn ESB hefði lýst áhyggjum af gullhúðun og talið hana grafa undan markmiðinu um sameiginlegan markað. „Fyrir fólk sem aðhyllist alþjóðasamstarf er auðvitað alvarlegt hvernig er farið að ræða um EES-samninginn og þess vegna eiga stjórnvöld að taka þessu alvarlega,“ sagði Kristrún.
Farið verði að lögum um opinberar eftirlitsreglur
Birta Sif Arnardóttir, lögfræðingur FA, gerði á fundinum grein fyrir tillögum félagsins um endurbætur á lögum um opinberar eftirlitsreglur, í því skyni að vinna gegn gullhúðun EES-reglna. Ráðgjafanefnd um opinberar eftirlitsreglur, sem á að starfa samkvæmt lögunum og vera samstarfsvettvangur atvinnulífsins og stjórnvalda, hefur ekki verið skipuð í fjögur ár. FA hefur lagt til við menningar- og viðskiptaráðuneytið að nefndin verði endurskipuð til samræmis við lögin og hnykkt verði á hlutverki hennar við að hafa eftirlit með tilhneigingum til gullhúðunar EES-frumvarpa.
Fundur FA og ÍEV var vel sóttur og má sjá myndir frá honum hér að neðan.