Félag atvinnurekenda hefur sent Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins nýtt erindi og spurst fyrir um innkaup á hraðprófum sem notuð eru þessa dagana til að greina COVID-19 smit. Í erindi FA er spurt hvort hraðprófin hafi verið keypt með löglegum hætti, þ.e. með útboði, og hvort Heilsugæslan telji að enn ríki neyðarástand, sem hún hefur áður borið fyrir sig.
Fram hefur komið að Heilsugæslan keypti inn hraðpróf fyrir tæplega 380 milljónir króna á níu mánaða tímabili án útboðs. Stofnunin bar fyrir sig ákvæði í lögum um opinber innkaup, þar sem segir að víkja megi frá útboði ef „innkaup eru algerlega nauðsynleg vegna aðkallandi neyðarástands sem stafar af ófyrirsjáanlegum atburðum og ekki er unnt að standa við fresti í almennu útboði, lokuðu útboði eða samkeppnisútboði.“ Í framhaldinu kærði FA Heilsugæsluna til kærunefndar útboðsmála, m.a. á þeim forsendum að undantekningarreglu laganna bæri að beita varlega og ekki gæti hafa ríkt neyðarástand í níu mánuði.
Í svari Heilsugæslunnar við erindi FA snemma í febrúar kom fram að útlit væri fyrir verulegan samdrátt á sýnatökum með hraðprófum og því ekki þörf á frekari innkaupum að sinni. Síðan hefur það gagnstæða gerst; sóttvarnayfirvöld hafa ákveðið að eingöngu hraðgreiningarpróf verði í boði fyrir þá sem vilja fá staðfestingu á COVID-smiti
Miðað við tölur sem birtar eru á covid.is hafa undanfarið verið tekin á bilinu þrjú þúsund til sjö þúsund hraðpróf á dag, þar af væntanlega stór hluti hjá Heilsugæslunni. Félagsmenn FA, sem hafa aðild að gagnvirku innkaupakerfi Ríkiskaupa vegna innkaupa á hraðprófunum, hafa engu að síður ekki orðið varir við að innkaup hafi farið fram innan kerfisins.
Í erindi sínu óskar FA eftir upplýsingum um hvort frekari innkaup hafi átt sér stað eftir 6. janúar sl. og hvort Heilsugæslan telji að neyðarástand sé enn fyrir hendi – og þá með hvaða rökum.
„Félagið telur ástæðu til að brýna fyrir Heilsugæslunni að fara eftir ákvæðum laga nr. 120/2016 um opinber innkaup en frekari innkaup á hraðprófum sem fara fram utan innkaupakerfisins verða einnig kærð til kærunefndar útboðsmála,“ segir í erindi FA.
Erindi FA til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
Uppfært 18. mars:
Eftirfarandi svar barst frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins: „Fyrirspurn Félags atvinnurekenda er fljótsvarað: HH hefur ekki gert nein kaup á hraðprófum eftir 6. janúar. Stofnunin hefur takmarkað hraðprófanotkun sína síðustu vikurnar. Líklegast er því að sýnataka einkaaðila hafi aukist vegna mikillar eftirspurnar. Stefnt er að því að loka sýnatökustað HH að Suðurlandsbraut 34 í lok mars. Frekari ákvarðanir hafa ekki verið teknar, enda óljóst hvernig þróun veirufaraldursins verður á næstunni.“