307 milljóna niðurgreiðsla á undirverðlagningu Póstsins

22.02.2021

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur úrskurðað Íslandspósti 509 milljónir króna í framlag frá skattgreiðendum vegna alþjónustubyrði ársins 2020. Inni í þeirri tölu eru m.a. 126 milljónir króna vegna taps fyrirtækisins sökum undirverðlagningar á pakkagjaldskrá Póstsins, sem hefur verið í gildi frá ársbyrjun 2020 og 181 milljón króna vegna þjónustu á „óvirkum“ markaðssvæðum þar sem engu að síður ríkir samkeppni. Félag atvinnurekenda ber brigður á ákvörðunina og telur að stjórnvöld geti ekki látið viðgangast að ríkisfyrirtækið undirverðleggi pakkaflutninga og grafi þannig undan rekstri keppinauta um allt land.

Ekki eitt orð um skyldu til að verðleggja í samræmi við raunkostnað
Pakkagjaldskrá Póstsins var breytt með vísan til ákvæðis, sem kom inn í ný póstlög í meðförum Alþingis, þess efnis að gjaldskrá fyrir alþjónustu skuli vera sú sama um allt land. Hún tók hins vegar ekki tillit til þess skýra ákvæðis póstlaga (3. málsgrein 17. greinar) að gjaldskrá vegna alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði, að viðbættum hæfilegum hagnaði. Þetta ákvæði er lykilatriði í löggjöfinni og er ætlað að hindra undirverðlagningu og ósanngjarna samkeppnishætti alþjónustuveitanda. Athygli vekur að í umfjöllun PFS um hina undirverðlögðu gjaldskrá Póstsins er þetta lagaákvæði ekki nefnt einu orði, eins og það sé ekki til í lögunum.

Þvert á móti virðist PFS fallast á rök Póstsins um að það að láta gjaldskrána taka mið af meðalverði um allt land myndi fela í sér „arðránsmisnotkun“ á höfuðborgarsvæðinu af því að þá væri verið að láta viðskiptavini þar niðurgreiða þjónustu við notendur á landsbyggðinni. Stofnunin telur að sú staða hefði mögulega komið upp að verið væri að „okra“ á höfuðborgarsvæðinu. Þá virðist þó horft framhjá því að gjaldskrá fyrir bréfasendingar Póstsins hefur um árabil verið sú sama um allt land og jafnframt eru viðtakendur pakkasendingar frá Evrópuríkjum látnir greiða sama aukagjald og viðtakendur sendinga frá Kína til að greiða niður meint tap Póstins af síðarnefndu sendingunum.

Skotið fast á Alþingi
PFS skýtur hins vegar föstum skotum á umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í ákvörðuninni og segir að nefndin hafi ekki gætt að því að með umræddri breytingu væri hún að auka greiðslur úr ríkissjóði vegna alþjónustu, sem ekki var gert ráð fyrir í fjármálaáætlun ríkisins. Þá virðist engin greining hafa farið fram af hálfu Alþingis um mögulegar fjárhagslegar afleiðingar lagabreytingarinnar fyrir þann aðila sem skylt væri að starfa undir kvöðinni um sama verð fyrir alþjónustu um allt land.

Niðurgreiðsla samkeppni á „óvirkum“ svæðum
Í ákvörðun PFS er jafnframt samþykkt 181 milljónar króna framlag til Póstsins vegna þjónustu á svæðum sem PFS hefur tekið sér fyrir hendur að skilgreina sem „óvirk markaðssvæði“ sem ekki falla undir landpósta. Á öllum þessum „óvirku markaðssvæðum“ starfar engu að síður fjöldi fyrirtækja í samkeppni við Póstinn. Þau fyrirtæki þurfa nú að keppa við ríkisstyrkta samkeppni. Stjórnendur Póstsins hafa tekið þá viðskiptalegu ákvörðun að halda úti fimm daga þjónustu á þessum stöðum, þrátt fyrir að alþjónustuskyldan kveði aðeins á um tveggja daga þjónustu. Sú ákvörðun er til að mæta samkeppni frá einkafyrirtækjum á viðkomandi svæðum.

Stjórnvöld verða að taka í taumana
„Við teljum þessa ákvörðun um 307 milljóna króna niðurgreiðslu skattgreiðenda á undirverðlagningu þjónustu Póstsins með miklum ólíkindum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Staðan er nú sú að stofnunin sem á að hafa eftirlit með póstmarkaðnum fellst á að undirverðlagning, sem bitnar hart á vörudreifingarfyrirtækjum um allt land, sé fjármögnuð úr sjóðum almennings. Ef þessi ákvörðun PFS stendur er stofnunin búin að skuldbinda ríkið til að greiða milljarða króna á komandi árum. Það getur ekki verið að samgönguráðherra eða Alþingi ætli að láta þetta viðgangast. Stjórnvöld verða einfaldlega að taka í taumana.“

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning