57% telja að klára hefði átt viðræður við ESB – fjórðungur hefur trú á krónunni

17.02.2016

Meirihluti aðildarfyrirtækja Félags atvinnurekenda, eða 57%, telur að ljúka hefði átt aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þetta er á meðal niðurstaðna í könnun FA á meðal aðildarfyrirtækja, sem gerð var í síðasta mánuði. Það er lítið eitt lægra hlutfall en í sambærilegri könnun fyrir ári, en þá sögðu 60% að ljúka hefði átt viðræðum.

Þá fjölgar þeim heldur sem hafa trú á krónunni sem framtíðargjaldmiðli Íslands, eða úr 19% í 25%. Um leið fækkar þeim sem sem sögðust ósammála þeirri fullyrðingu að krónan væri framtíðargjaldmiðill fyrir landið úr 54% í 44%.

Lítil breyting er á afstöðu fyrirtækjanna til upptöku evru. Um 39% telja að taka ætti hana upp við aðild að ESB, eða sama hlutfall og í fyrra. Árið 2014 sögðust hins vegar 57% telja að taka ætti upp evruna við ESB-aðild. Þeim fækkar aftur á móti heldur, sem segjast telja að taka ætti upp annan gjaldmiðil einhliða hér á landi, eða úr 27% í 19%.

Alls eru 30% aðildarfyrirtækjanna á því að Ísland ætti að ganga í ESB. Það er nokkurn veginn sama hlutfall og á síðasta ári. 41% er hins vegar andvígt, eins og í fyrra.

Evrópu- og gjaldmiðlamál 2016

Könnunin var gerð dagana 19.-26. janúar. Hún var send til forsvarsmanna 150 fyrirtækja með beina félagsaðild og svöruðu 94, eða tæp 63%.

Ályktun stjórnar FA um aðildarviðræður við ESB og gjaldmiðlamál frá 27. janúar 2015

Nýjar fréttir

Innskráning