60% vilja halda áfram viðræðum

09.02.2015

Sextíu prósent aðildarfyrirtækja FA telja að halda hefði átt aðildarviðræðum við Evrópusambandið áfram. Þetta kemur fram í nýrri könnun meðal félagsmanna, þar sem 64% fyrirtækja með beina félagsaðild svöruðu. Sama hlutfall sagðist telja að halda ætti aðildarviðræðum áfram í sambærilegri könnun á síðasta ári.

Aðeins 19% félagsmanna í FA telja krónuna framtíðargjaldmiðil fyrir Ísland, en 54% eru slíkri fullyrðingu ósammála. Þetta er einnig mjög svipuð niðurstaða og í könnuninni í fyrra.

Hins vegar hefur orðið talsverð breyting á afstöðu aðildarfyrirtækja til evrunnar. Í fyrra sögðust 57% telja að taka ætti hana upp á Íslandi við aðild að ESB, en nú segjast aðeins 39% á þeirri skoðun. Um 40% eru á móti, en voru 28% í fyrra. Óákveðnum fjölgar einnig.

Um 19% aðildarfyrirtækja segjast hlynnt því að Ísland gangi í ESB, en 41% er því andvígt. Þetta eru jafnframt mjög svipaðar niðurstöður og í fyrra.

Þá segjast 27% sammála því að taka ætti einhliða upp annan gjaldmiðil hér á landi. Það hlutfall var í fyrra 33%. Andvíg því eru um 40%, einnig heldur færri en í fyrra, en óákveðnum fer fjölgandi.

Evrópa og gjaldmiðlar

Nýjar fréttir

Innskráning