70% félagsmanna nýta stuðningsúrræði

26.08.2020

Rétt um 70% félagsmanna FA, sem svöruðu könnun félagsins, nýta einhver stuðningsúrræði stjórnvalda vegna heimsfaraldurs COVID-19 veirunnar. Langmest er nýtingin á hlutabótaleiðinni, sem 49,3% hafa nýtt sér, og á frestun greiðslu opinberra gjalda, sem 53,3% hafa notfært sér.  Könnunin var gerð fimmtudaginn 20. ágúst til mánudagsins 24. ágúst. Af 164 fyrirtækjum með beina félagsaðild svöruðu 73, sem er um 45% svarhlutfall.

Af öðrum niðurstöðum í könnuninni má nefna eftirfarandi:

  • Enginn svarandi hefur sótt um brúarlán með ríkisábyrgð að hluta.
  • Tæplega 9% hafa sótt um stuðningslán með fullri rikisábyrgð.
  • Eitt fyrirtæki hefur sótt um og fengið lokunarstyrk.
  • Rúmlega 21,1% hefur sótt um bætur vegna launagreiðslna til starfsmanna í sóttkví.
  • Eitt fyrirtæki hefur sótt um ríkisstuðning vegna launagreiðslna á uppsagnarfresti. 
  • Flest fyrirtæki hafa nýtt sér frest á greiðslu tryggingagjalds (21%) og á staðgreiðslu opinberra gjalda (21%).

Tekjusamdráttur hjá helmingnum og fækkun starfsmanna hjá 38%
Spurt var hvort tekjur fyrirtækisins hefðu aukist eða minnkað á fyrri helmingi ársins miðað við sama tíma í fyrra. Hjá rúmlega helmingi fyrirtækjanna drógust tekjurnar saman, en hjá tæplega 13% jukust þær. Fyrirtækin sem sögðust hafa aukið tekjur sínar nýta almennt ekki stuðningsúrræði stjórnvalda.

Hjá þeim sem sögðust hafa orðið fyrir tekjusamdrætti var hann mjög mismunandi mikill, allt frá fáeinum prósentum upp í 75%. Að meðaltali drógust tekjur þessara fyrirtækja saman um 33,5%. Hjá þeim sem sögðust hafa aukið tekjur sínar nam aukningin hins vegar að meðaltali um 22%.

Spurt var um breytingar á starfsmannafjölda á fyrri hluta ársins miðað við sama tíma í fyrra. Aðeins tvö fyrirtæki sögðust hafa fjölgað starfsmönnum, en rúmlega 38% sögðust hafa fækkað fólki. Aftur er fækkunin mjög mismikil, en að meðaltali hafa þessi fyrirtæki fækkað starfsfólki um fjórðung.

Ánægja með aðgerðir ríkisins, óánægja með sveitarfélögin
Afstaða fyrirtækjanna sem svöruðu könnuninni er frekar jákvæð í garð stuðningsaðgerða ríkisins í þágu fyrirtækja. Tveir þriðju hlutar segjast ánægðir eða mjög ánægðir með aðgerðirnar, sem er svipuð niðurstaða og í könnun FA í byrjun apríl.

Þegar spurt er um afstöðu til aðgerða sveitarfélaganna er annað uppi á teningnum, 45% svarenda segjast óánægðir eða mjög óánægðir en aðeins 12% lýsa yfir ánægju. Aftur er þetta svipuð niðurstaða og í apríl.

Framlenging hlutabótaleiðar og lækkun skatta og gjalda
Spurt var til hvaða nýju aðgerða stjórnvöld gætu gripið fyrirtækjum til aðstoðar í efnahagserfiðleikunum vegna heimsfaraldursins. Þar stendur tvennt upp úr í svörum fyrirtækjanna; annars vegar framlenging hlutabótaleiðarinnar og hins vegar lækkun skatta og gjalda, en þar voru fasteignagjöld og tryggingagjaldið oftast nefnd.

Bjartsýni á áframhaldandi rekstur
Þrátt fyrir mótbyr eru félagsmenn FA almennt bjartsýnir á framtíðina; 95% þeirra segjast telja líklegt eða mjög líklegt að fyrirtækið þeirra verði enn starfandi að ári liðnu.

 

 

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning