Könnun FA: 93% félagsmanna ánægðir með starf FA

16.02.2025

Samtals segjast 93% svarenda í könnun FA ánægðir eða mjög ánægðir með starf félagsins í heild. Sú tala hefur ekki verið hærri í könnunum félagsins. Almenn ánægja er meðal félagsmanna með þjónustu félagsins og frammistöðu þess í helstu baráttumálum, samkvæmt niðurstöðum árlegrar könnunar meðal félagsmanna.

89% ánægðir með lögfræðiþjónustuna
Spurt var um notkun félagsmanna á ýmsum þjónustuþáttum FA og afstöðu þeirra til þjónustunnar. Niðurstöðurnar má sjá hér að neðan. Hægt er að smella á myndina til að skoða niðurstöðurnar betur.

Sú þjónusta sem flestir nota eru upplýsingapóstar um t.d. kjaramál, samkeppnismál o.fl. en 81% félagsmanna fylgist með þessum upplýsingum og 91% lýsir ánægju eða mikilli ánægju með þær. Þá nota 70% lögfræðiþjónustu félagsins og 89% eru ánægðir eða mjög ánægðir með hana. Aðstoð við hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum segjast 68% nýta sér og 81% lýsir ánægju eða mikilli ánægju með þjónustuna. Rétt rúmlega helmingur nýtir örnámskeið á netinu og 92% segjast ánægðir eða mjög ánægðir með þau. Aðeins fleiri fylgjast með félagsfundum FA og 85% eru í ánægða eða mjög ánægða hópnum. Sama hlutfall nýtir aðstoð vegna kjarasamninga og þar er hæsta hlutfall óánægðra, eða 7%, en 78% segjast ánægðir eða mjög ánægðir.

Mest ánægja með baráttu fyrir einföldun regluverks, breytingum í starfsmannamálum ríkisins og samkeppni í sjóflutningum
Spurt var um afstöðu félagsmanna til frammistöðu FA í ýmsum baráttumálum félagsins og skoða má niðurstöðurnar hér að neðan. Smella má á myndina til að stækka hana.

Mesta ánægjan er með baráttu félagsins fyrir einföldun regluverks til að lækka kostnað fyrirtækja, m.a. með því að hætta svokallaðri gullhúðun Evrópureglna, en þar segjast 58% mjög ánægðir með frammistöðuna og 35% til viðbótar ánægðir, samtals 93%. Álíka margir (92%) lýsa ánægju með baráttu FA fyrir því að fjölgun ríkisstarfsmanna verði stöðvuð og lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna breytt. Meirihluti er einnig mjög ánægður með baráttu FA fyrir heilbrigðri samkeppni í sjóflutningum og 37% til viðbótar ánægðir, samtals 89%. Minnst er ánægjan með frammistöðu FA í baráttu fyrir lægri áfengissköttum (64%) og fyrir meira frjálsræði í áfengisverslun (66%)

Meirihluti telur félagsgjöldin sanngjörn miðað við sinn ávinning
Spurt var um afstöðu til nokkurra fullyrðinga um FA. Skoða má niðurstöðurnar nánar með því að smella á myndina hér að neðan.

Samtals sagðist 91% sammála eða mjög sammála því að FA væri sýnilegt í baráttu sinni fyrir félagsmenn. Enginn var ósammála. Þá sögðust 88% sammála eða mjög sammála því að ímynd FA væri jákvæð. Spurt var um afstöðu til fullyrðingarinnar „Félagsgjöld í FA eru sanngjörn miðað við ávinning míns fyrirtækis af félagsaðild“ og sögðust 55% sammála eða mjög sammála, en 39% svöruðu „hvorki né“. Loks sögðust 93% sammála eða mjög sammála fullyrðingunni „Ég er ánægð(ur) með starf FA í heild“. Enginn sagðist ósammála.

Könnunin var gerð á netinu dagana 7.-13. febrúar. Svör bárust frá 58 fyrirtækjum af 144 með beina félagsaðild, eða 40,3%. Það er svipað svarhlutfall og á síðasta ári. Svörin verða ekki rakin til einstakra svarenda eða fyrirtækja.

Nýjar fréttir

Innskráning