FA fagnar afnámi vörugjaldanna

16.12.2014
Fjármálaráðherra og formaður FA ræddu um vörugjöldin fyrr á árinu.
Fjármálaráðherra og formaður FA ræddu um vörugjöldin fyrr á árinu.

Alþingi samþykkti í dag frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um virðisaukaskatt og vörugjöld. Vörugjöld af ýmsum raftækjum og stærri heimilistækjum falla niður um áramót, svo og af bílavarahlutum og ýmsum byggingavörum og matvöru sem inniheldur sykur og sætuefni. Munurinn á virðisaukaskattsþrepunum er minnkaður þannig að það neðra verður 11% en það efra 24% og undanþágum frá virðisaukaskatti er fækkað.

 

Birgir Bjarnason, formaður Félags atvinnurekenda, segir félagið fagna þessari niðurstöðu eindregið. „Við höfum áratugum saman barist fyrir afnámi vörugjaldanna, sem eru fáránleg, órökrétt og óréttlát skattheimta og hafa komið hart niður bæði á neytendum og fyrirtækjunum í landinu,“ segir Birgir.

 

Hann segir að þessi stóri áfangi í baráttu félagsins fyrir réttlátara rekstrarumhverfi fyrirtækja sé hvatning til að halda öðrum baráttumálum FA áfram á lofti. „Við þurfum að sýna viðlíka þrautseigju í öðrum málum til að ná þeim líka í gegn. Eitt af markmiðum okkar á til dæmis að vera að álagning tolla á innflutning sé undantekning, en ekki regla.“

 

Ekki allar verðlækkanir strax

 

Aðeins sex virkir dagar eru nú til áramóta og ljóst að verslunin í landinu og ýmsar opinberar stofnanir munu þurfa að halda vel á spöðunum til undirbúa breytinguna, sem á að taka gildi 1. janúar.

 

Eins og fram hefur komið, hafa fjármálaráðuneytið og Alþingi ekki brugðist við ábendingum FA um aðstöðumun innlendra framleiðenda og innflytjenda þegar kemur að afnámi vörugjalda. Innlendir framleiðendur geta tekið vörugjaldið af strax um áramót við sölu á vöru sinni, en innflytjendur verða að greiða vörugjald af öllum vörum sem þeir flytja inn fyrir áramót, þótt þær séu ekki seldar fyrr en eftir áramót. „Þetta þýðir að í einhverjum tilvikum getur verið að lækkun á verði vörunnar komi ekki fram fyrr en eitthvað er liðið á nýja árið,“ segir Birgir. „Því miður var ekki brugðist við tillögum um að innflytjendur fengju endurgreitt vörugjald af vörum sem þeir ættu á lager um áramót, þannig að því miður er ekki hægt að reikna með jafn merkjanlegri breytingu og ef svo hefði verið.“

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning