Stjórn FA bregst við skýrslu um dagvörumarkaðinn

16.03.2015

Samkeppni á dagvörumarkaði skýrslaStjórn Félags atvinnurekenda hefur samþykkt eftirfarandi ályktun:

Stjórn Félags atvinnurekenda hefur í framhaldi af útgáfu skýrslu Samkeppniseftirlitsins um samkeppni á dagvörumarkaði ákveðið að beita sér fyrir beinu samtali milli birgja á dagvörumarkaði innan raða FA og samkeppnisyfrvalda. Markmiðið er að bregðast við athugasemdum og ábendingum Samkeppniseftirlitsins varðandi samninga birgja og dagvöruverslana, sem fram koma í skýrslunni.

Stjórnin fagnar útgáfu skýrslunnar og mörgum þeim ábendingum sem þar koma fram af hálfu Samkeppniseftirlitsins. Þar á meðal er afnám samkeppnishamla í landbúnaði, uppbrot Mjólkursamsölunnar í smærri einingar, breytingar á útboði tollkvóta fyrir búvörur og afnám verndartolla, en allt eru þetta atriði sem munu auka samkeppni, hagsæld og velferð neytenda. FA tekur undir með Samkeppniseftirlitinu að lítið stoðar fyrir stjórnvöld að gagnrýna verðlag á matvöru ef þau eru sjálf ekki reiðubúin að grípa til aðgerða sem til þess eru fallnar að efla samkeppni.

Þá fagnar stjórn FA umræðu í skýrslunni um hvort endurskoða beri skilarétt dagvöruverslana á vörum, en Samkeppniseftirlitið telur slík ákvæði í samningum leiða til verðhækkunar og sóunar á mat; nær væri að verslanir lækkuðu verð viðkomandi vöru þegar hún nálgast síðasta söludag. Ennfremur er fagnaðarefni að Samkeppniseftirlitið efni til umræðu um að gæta beri að því að dagvöruverslun í sterkri stöðu geri ekki óhóflegar kröfur til þátttöku birgja í markaðs- og kynningarstarfi.

Félag atvinnurekenda tekur hvatningu Samkeppniseftirlitsins um að stuðla að bættri samkeppnismenningu innan sinna raða og vill leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að efla samkeppni á dagvörumarkaðnum, neytendum til hagsbóta. Félagið væntir þess að aðrir sem tilmæli Samkeppniseftirlitsins beinast að, þar með talin stjórnvöld, leggi jafnframt sitt af mörkum til að efla og styrkja frjálsa samkeppni á dagvörumarkaðnum.

Viðtal við Ólaf Stephensen framkvæmdastjóra FA á Bylgjunni

Nýjar fréttir

Innskráning